Ef við vissum hvernig langvarandi seta hefur áhrif á líkamann þá myndum við passa okkur betur vegna þess að löng seta getur haft áhrif á efnaskiptin í líkamanum. Nýjar rannsóknir sýna fram á að blóðsykur getur hækkað og minni nýting verður á fitu sem orkugjafa sem segir okkur að fituforði okkar eykst. Það er ekki bara það að þú hreyfir þig minna með setunni heldur alvarlegra er að breytingar geta orðið á efnaskiptahraða líkamans.
Sittu á rassinum og safnaðu fitu
Þegar við erum á ferðinni þá er hringrásin í kerfinu okkar rétt, þ.e. við erum að nota fitu sem orkugjafa fyrir vöðvana okkar ásamt kolvetni. En rannsóknin sýnir að þegar við sitjum lengi kyrr, eins og við þekkjum það við tölvuna, þá er ákveðið ensím sem heitir lipoprotein lipase óvirkara. Það gerir það að verkum að við brjótum ekki niður fitu til að nota sem orkugjafa eins mikið og venjulega. Við aukum fitumassann okkar, minnkum hlutfall góða kólesterólsins og hægjum þannig líka á efnaskiptahraða líkamans. Og þó svo þú farir á æfingu seinna um daginn þá dugar það ekki til.
5 mínútur gera kraftaverk
Góðu fréttirnar eru þær að með því að taka hlé á setunni og hreyfa okkur aðeins á milli, t.d. standa upp og ganga um í 5 mín á klst fresti gerir kraftaverk. Vinnustaðir ættu betur að huga að þessu og með því að setja á skjáinn sinn áminningu sem brosir til þín á klst fresti þá er létt að muna að standa upp frá vinnunni. Ef við gerum okkur grein fyrir því hversu mikilvægt er að halda kerfinu vel gangandi þá leggjum við það á okkur að taka pásu á klukkustundar fresti.
Hér eru slóðir á góð forrit sem minna þig á að standa upp:
Guðbjörg er iþróttakennari frá Íþróttakennaraskóla Íslands. Hún hefur verið í líkamsræktarbransanum frá því árið 1989. Alltaf tilbúin að taka að sér krefjandi verkefni. Haldið ýmis þjálfaranámskeið fyrir þolfimikennara og einkaþjálfara auk þess að vera stundakennari við HR íþróttafræði. Undanfarin 19 ár hefur hún starfað með Agústu Johnson en nú hefur hún stofnað sitt eigið fyrirtæki, G fit heilsurækt og elskar að taka þátt í vellíðan fólks og upplifa árangur í líkamsrækt. Guðbjörg á skilningsríkan eiginmann og þrjú yndisleg börn.