Þú ert með markmiðin þín alveg á tæru, en hvað sérðu þegar þú horfir í kringum þig heima hjá þér?
Er samræmi á milli þess sem þú hefur sett þér sem markmið og þess sem þú ert með í kringum þig allan daginn – heima / í vinnunni / og svo aftur heima þegar vinnudegi lýkur?
Farðu aðeins yfir markmiðin þín – og fáðu þér svo smá göngutúr um híbýlin og horfðu gagnrýnum augum á umhverfi þitt.
Hvernig er með veggskreytingarnar? Er samræmi á milli markmiðanna og veggskreytinganna – eða eru veggskreytingarnar í hróplegu ósamræmi við það sem þú vilt að sé raunveruleiki þinn? Hvað með það sem þú ert með í kringum þig í stofunni, eldhúsinu – já og í svefnherberginu? Láttu þér ekki nægja að horfa eingöngu á veggskreytingarnar heldur ekki síður á það sem er á gólfinu, úti í hornum, ofan á skápum, líttu sem sagt vel í kringum þig.
Hvernig getur þú komið betra samræmi á – án mikils tilkostnaðar? Spáðu aðeins í þetta.
SIGGI SEM ER LÖNGU FARINN
Hér kemur góð dæmisaga. Siggi lést um aldur fram fyrir mörgum árum síðan. Gunna og Siggi voru mjög ástfangin og hamingjusöm í alla staði, ánægð með lífið og tilveruna þegar óhamingjan dundi yfir og Siggi lést snögglega. Kannski þekktir þú þau, en ég ætla samt að gefa þér örlitla innsýn í aðstæður Gunnu í dag og leyfa þér að lesa nokkrar glefsur úr samtölum okkar Gunnu.
“Ertu að meina það? Á ég virkilega að taka niður myndina af honum Sigga?” Stúlkan leit á mig hálf hrygg.
„Já, mér finnst að þú gætir að minnsta kosti tekið niður einhverjar myndanna” sagði ég. “Líttu í kringum þig hérna í stofunni og frammi á gangi og kíktu svo inn í svefnherbergið á eftir. Teldu hvað þú ert með margar myndir af gamla góða kærastanum sem dó fyrir … ja, teldu í huganum fyrir hvað mörgu árum síðan!”
“Þú ert enn með myndir af honum úti um allt og kveikir svo oft líka á kertum við myndirnar á kvöldin þegar þú kemur heim. Þú ert allavega með kveikt hjá myndinni hans hérna núna. Hvaða áhrif heldur þú að þetta hafi á þig? Hvaða skilaboð ertu að senda út í alheiminn? Heldur þú að Siggi hefði viljað að þú yrðir alltaf ein?“
“Siggi var fínn strákur – en eru ekki að verða 9 ár frá því að hann dó og þú ert enn að syrgja hann – á sama tíma og þú vilt fara að kynnast einhverjum góðum gæja til að njóta þess með að vera til, njóta þess að taka þátt í lífinu á ný! Þú ert ekkert að gleyma honum fyrir það, þú ert bara að halda lífinu áfram, er ekki kominn tími á það?”.
“Taktu nú myndirnar niður, þú getur skilið eina eða tvær eftir, kveiktu bara af og til á kerti hjá myndinni hans og veldu þér glaðlegar og rómantískar myndir á veggina, við getum spáð í það saman ef þú vilt. Þegar þú ert búin að því – þá skulum við skella okkur í bæinn og tékka á Bóndarósunum!
”Ha, bóndarósum, til hvers?”
“Engan asa stúlka, eitt í einu, fyrst myndirnar niður, slökkva á flestum kertunum, taka smá til og pússa OG SVO athugum við þetta með Bóndarósirnar!”
Viku síðar hringdi gemsinn þegar ég var á miðri Breiðholtsbrautinni, sem betur fer með sjálfvirka búnaðinn í gangi (að sjálfsögðu):
„Hæ – hefurðu mínútu? – ég er í smá klípu“
“Hæ hæ, nú – hvernig gengur? Er Siggi kominn á sinn stað? eða ætti ég frekar að spyrja hve margir Siggar eru eftir?” … ég var alveg að verða of sein á námskeið en var ákveðin í að ýta aðeins á eftir dömunni með þetta.
“… sko – ég var byrjuð en þá kom Lísa vinkona í heimsókn með krakkana, það var sko hún sem kynnti mig fyrir Sigga, þau voru leikfélagar og hún hélt alltaf rosamikið upp á hann… hún bara spurði hvort ég væri orðin eitthvað rugluð! Siggi kominn niður í skúffu!”
Þetta var nú ekki nógu gott. Ætlaði nú gömul æskuvinkona látna kærastans að fara að hafa ómeðvitað áhrif á það hvort glæsileg ung kona (að vísu með dálítið brotna sjálfsímynd) fengi að njóta þess að vera elskuð á ný af nýjum draumaprinsi! Nú varð að setja handbremsuna í botn.
“Heyrðu vinan, hvort ætlar þú að fara að opna augun fyrir umhverfinu og sjá blómin í blómagarðinum eða að sitja heima og fletta í alfræðiorðabók yfir hugsanlegar merkingar á orðinu einlífi, skírlífi, klausturlíf, ………
Hristu þessa stelpu af þér, hún er ekki vinkona í raun ef hún er að leggja þessa pressu á þig, hún er sjálf ekki komin yfir þessa erfiðleika sem þið lentuð jú öll í en ÞÚ er ákveðin í halda áfram eða… heyrðu, ég þarf að beygja, rosaleg umferð er þetta, – haltu nú áfram og sendu mér línu um hvernig gengur, þú ert með netfangið…………. bæ!”
TAKTU TIL Í TILVERUNNI
Hvernig er þetta með Siggana í þínu lífi?
Ertu enn með hugann fastan við gamla drauma eða leyfir þú þér að dreyma nýja drauma um það sem þú vilt að sé raunveruleiki þinn í dag? Láttu ekki aðra hafa um of áhrif á það sem þú vilt. Þetta er þitt líf og enginn annar en þú getur sagt til um hvað þú vilt. Leyfðu þér að njóta lífsins núna, hver einasti dagur er dýrmætur og kemur aldrei aftur. Farðu vel með líf þitt því þú skiptir meira máli en þig grunar.
Þegar líf þitt er hamingjuríkt og gleði og ánægja ríkjandi, þá smitar það út frá sér til þeirra sem eru í návist þinni, hvort heldur sem er í fjölskyldunni eða á vinnustaðnum. Að sama skapi smitast óhamingja, harmur, depurð og þunglyndi á allt það sem þú gerir eða lætur ógert.
Því er það svo mikilvægt að þegar dimmir í dalnum (sem getur jú gerst hjá hverjum sem er og nær hvenær sem er) – að þá er svo mikilvægt að leita sér hjálpar sem við á. Það er enginn minni maður af því að leita sér aðstoðar við hæfi heldur sýnir það ábyrgðartilfinningu viðkomandi. Berðu virðingu fyrir þér og öllu því sem snertir líf þitt og haminjgu. Þú berð ábyrgð á því að þú fáir að njóta þess að vera þú!
Bestu kveðjur – og gangi þér vel
Jóna Björg Sætran M.Ed., markþjálfi www.blomstradu.is
Jóna Björg er menntunarfræðingur, M.Ed., frá KHÍ, er með alþjóðlega vottun sem ACC markþjálfi frá ICF (International Coach Federation) og er einnig Feng Shui ráðgjafi.
Í vetur hefur Jóna Björg svo lagt stund á Hugræna atferlismeðferð (HAM) í Endurmenntun HÍ. Jóna Björg starfar sjálfstætt við einkaleiðsögn, námskeiðahald, ritstörf, fyrirlestra og ráðgjöf jafnt hjá einstaklingum og fyrirtækjum. Hún var leiðbeinandi hjá Brian Tracy International hér á landi og er fyrrverandi námstjóri hjá menntamálaráðuneytinu.
Jóna Björg fer ótroðnar slóðir, elskar að takast á við krefjandi verkefni og finnst langmest gefandi að vinna með fólki að bættri líðan, meiri hamingju og hugrró.
Einkunnarorð hennar eru: Blómstraðu í einkalífi og starfi, njóttu þess að vera þú!