Árið 1993 missti ég ömmu mína sem þá var aðeins 63 ára úr krabbameini en fáar manneskjur hef ég elskað jafn mikið og þá góðu konu.
Ég gleymi aldrei samtali sem ég átti við hana eftir að hún varð lasin. Hún lá veikburða í sófanum heima og sagði:
“Veistu elskan mín ég held bara að ég hafi bara ekki hugsað nógu mikið um mataræðið.”
Ég skildi ekki alveg hvað hún var að meina því hún hafði alltaf verið í ágætu formi, synti daglega og borðaði það sem var bara kallað ‘venjulegur heimilismatur’.
En hún sagði, “Það er einmitt vandamálið. Maður hugsaði bara ekki út í þetta. Ég hélt alltaf að þetta væri bara ágætur matur. Þessi ‘venjulegi’ matur.”
Þarna urðu kaflaskil í lífi mínu. Þetta var það sem kalla má – Moment of truth, og innra með mér áttu sér stað hræringar.
Ég brást samt ekki við þessum pælinum sem kviknuðu þarna af neinu viti fyrr en tveimur árum síðar. Þetta samtal sat bara í mér, gerjaðist innra með mér og ég fór meðvitað og ómeðvitað að skoða það sem ég borðaði og hvað aðrir voru að borða í kringum mig.
Ég spáði í hvað hafði verið á boðstólnum heima hjá mér og ömmu… Kjötfars, pylsur, malakoff, skinka, spægipylsur, bjúgu, hakk og svo framvegis. Kökur, vínarbrauð og snúðar svona spari. Fiskur og kartöflur voru eflaust með því hollasta en ávextir og grænmeti voru alltaf af skornum skammti og ekki furða enda fátt um fína drætti í vöruúrvali á skerinu. Matur var oft mikið unninn og geymsluvarinn.
Viðsnúningur
Eitt leiddi af öðru og ég safnaði í upplýsingabankann en tveimur árum síðar sat ég einn daginn í matsalnum í skólanum mínum í Kaupmannahöfn og tuggði svínakjöt.
Rétt áður en ég stakk næsta bita upp í mig stoppaði ég allt í einu, eins og ósjálfrátt, og sagði við sjálfa mig ‘hvað ertu eiginlega að borða’? (og ég vil ekki lýsa því sem á eftir fór í huganum).
Svo lagði ég gaffalinn frá mér og hef ekki snert svínakjöt síðan.
Upp úr þessu breytti ég mataræði mínu. Ég borða sjávarfang og fisk, stundum kjúkling og alveg örsjaldan lamb (tók upp á því fyrir 3 árum eftir 15 ára hlé) en fæðan er mikið til úr jurtaríkinu.
Undanfarið hef ég borðað aðeins meira af kjúlla og laxi þar sem ég er á fullu í ræktinni og vöðvar verða að fá slatta af próteini ef þeir eiga að vera sterkir og fínir. Ég reyni að kaupa kjúkling sem er laus við aukaefni.
Mataræði mitt er þó ekki sérlega flókið. Ég leitast einfaldlega við að borða ferskan mat sem kemur ekki í skrautlegum pakkningum og hefur lítið eða ekkert verið átt við.
Ég hef lesið innihaldslýsingar í rúmlega 20 ár. Er orðin meiriháttar sleip í þeirri list og les þannig á allt áður en ég kaupi það í fyrsta sinn til að ákveða hvort mér lýst á það eða ekki.
Ég borða egg nokkrum sinnum í viku og kaupi mjög gróf brauð án sykurs (t.d. frá Delba). Hvítt heiti borða ég svo gott sem aldrei og pastað og grjónin eru brún eða úr spelti.
Ég er ekki mikið fyrir sykur og þegar ég baka eða þarf sætu í mat nota ég yfirleitt steviu en áður en hún kom á markað var það hunang sem fór í brauð og bakstur.
Ég kaupi ekki sykraðar mjólkurvörur nema spari fær stelpan mín jarðarberja AB mjólk um helgar og stundum sykurkskerta kókómjólk. Við kaupum þó oft dökkt súkkulaði 60-70% er best.
Auðvitað er ég ekki gersamlega að tapa mér í þessu. Það veit aldrei á gott að hafa mat ‘gersamlega á heilanum’. Stundum ‘tríta’ ég mig. Fæ mér smá nammi á kósýkvöldi eða borða einhverja vitleysu. Fer á búlluna í grænmetisborgara eða á Eldsmiðjuna í pizzu, en þetta er ‘once in a blue moon’ ef svo má að orði komast.
Ég á yfirleitt alltaf skonsurnar mínar og borða þær mikið, á alltaf egg og ávexti. Kaupi aldrei kók, sæt kex eða þessháttar snakk en á frekar hnetur og rúsínur eða bláber, oft með dökku súkkulaði (fást góð þannig súkkulaðihúð í Kosti).
Ávinningurinn af lífstílnum er meðal annars þessi:
1. Ég fæ aldrei flensu eða kvef (7.9.13). Ég man hreinlega ekki hvenær það var síðast. Kannski 7 ár. Ónæmiskerfið mitt er í toppstandi.
2. Ég er með hreina húð. Fólk heldur oft að ég sé nokkrum árum yngri en ég er í raun og ég skrifa það 110% á mataræðið og vatnsdrykkju.
3. Ég hef aldrei fitnað eða bætt á mig meira en 4-5 kg frá þeirri þyngd sem mér finnst best að vera í. Fyrir utan skiptið sem ég gekk með elsku dóttur mína. Það er önnur saga.
4. Ég sef yfirleitt vel og á ekki í veseni með hvíldina.
5. Ég hef gott þol og úthald og er fljót að komast í form eftir hlé frá æfingum í ræktinni.
6. Ég er almennt sátt við sjálfa mig og líður vel í eigin skinni, þó maður geti auðvitað alltaf á sig blómum bætt. Ég hlakka til að eldast og vona að framlag mitt til eigin heilsueflingar skili mér ágætum lífsgæðum í hverjum áratug. Mig langar að verða 93 ára og helst að fá hjartastopp í hláturskasti og deyja þannig.
7. Dóttir mín 9 ára lærir það sem fyrir henni er haft. Hún elskar skonsurnar okkar og hreina lífræna jógúrt og hefur kvartað yfir því að nammi sé of sætt. Hún snertir ekki gosdrykki eða lakkrís og velur dökkt súkkulaði umfram annað.
Gallarnir eru þessir:
1. Í gamla daga, áður en svona sérvitrir furðufuglar urðu jafn algengir og núna, var mér stundum ekki boðið í matarboð þar sem svín eða kúa/nautakjöt var á boðstólnum. Það var leiðinlegt en þetta er breytt í dag.
2. Ferðalög geta verið erfið, maður þarf að hafa með sér nesti ef vel á að vera.
3. Ég er viðkvæm fyrir lélegum mat. Fæ brjóstsviða eða illt í magann ef ég borða mat sem inniheldur mikið af aukaefnum (t.d. á veitingastöðum erlendis). Get t.d. ekki farið á Cheesecake factory. Ekki eins og það sé alvarlegt vandamál 😉
4. Stundum þurfti maður að verja mataræði sitt. Það er leiðinlegt en þetta er líka mikið breytt í dag. Nú þarf ég ekki mikið að fara yfir það hvort “grænmeti hafi líka tilfinningar eins og svínin” – Thank god!
Mér hefur þótt gersamlega frábært að sjá hvað fólk er að vakna til meðvitundar í sambandi við mataræði nú síðustu ár og sér í lagi eftir kreppu. Það þakka ég mikið henni Sollu Eiríks sem hefur haft meiriháttar góð áhrif á heilsueflingu landans. Hún er okkar Jamie Oliver.
Sykurinn
Margir eru líka farnir að spá í sykurinn í sínum mörgu gervum og þau skaðlegu áhrif sem hann hefur á heilsuna en sykurneysla Íslendinga jaðrar við einhverja geðbilun að mínu mati. Að sjá plömmerana fyrir framan nammibarinn á laugardagskvöldum og hlusta á skellina og moksturinn. Hvað er í gangi?! Getur einhver stöðvað þetta?
HÉR er meira um skoðanir mínar á þessu málefni.
Þar sem ég hef alltaf haft annað augað opið og njósnað um samhengi milli þess sem er borðað og heilsunnar verð ég að segja að mér sýnist enginn skaðvaldur jafn skæður og sykurinn þegar það kemur að heilsunni og nú hafa rannsóknir sýnt fram á það er tenging á milli krabbameins og sykurneyslu:
“There is some evidence that consuming large amounts of sugar is associated with an increased risk of certain cancers, including esophageal cancer. It can also lead to weight gain and increase the risk of obesity and diabetes, which may increase the risk of cancer”. Stendur á vef Mayo Clinic en það er ein virtasta heilsustofnum Bandaríkjanna.
Ef þú drekkur mikið gos, eða borðar mikið sælgæti, kökur og þessháttar þá er það bara fyrsta skrefið í átt til betra lífs og heilsu að venja sig af þessu og það sem fyrst.
Þú ferð illa með sjálfa þig, og þá er ég ekki að tala um af því þú bætir á þig óþarfa aukakílóum, heldur af því með þessu “mataræði” er verið að veikja ónæmiskerfið og fara mjög illa með þetta stutta líf sem við eigum. En það besta er að hver dagur er nýtt upphaf.
Það er um að gera að byrja sem fyrst að leggja inn í heilsubankann sinn. Það er nefninlega ekki hægt að taka endalaust út. Því fyrr sem maður byrjar því betra verður lífið og það er aldrei of seint að byrja.
Knús og kærleikur
Ég er af X-kynslóð, elska 70’s tónlist, finnst gott að fara í sund á kvöldin og á erfitt með arfa i görðum. Kýs fjölbreyti í lífið. Kann eina Eminem plötu utanað. Hef thing fyrir Marilyn Monroe, áhuga á feminisma og svona sitthvað fleira.