Það eru ekki margir dagar síðan mennta- og framhaldsskólar landsins hófu göngu sína og í kjölfarið verða haldin busaböll hér og þar um landið til að fagna komu nýnema í skólann.
Á milli þess að nemendur svitna yfir bókunum eru margir sem kynnast fyrstu ástinni, eða bara verða skotnir og þá fylgir oft að fanga sinn fyrsta koss sem er mjög minnistæður fyrir marga þegar gengið er inn í fullorðinsárin.
En það getur verið galli á gjöf Njarðar.
Á hverju ári fær x fjöldi unglinga hinn hvimleiða vírus mononucleosis eða kossasótt/einkyrningssótt og í kjölfarið missa sumir hálft til heilt ár út skóla – út af þessari sótt!
Einkenni sóttarinnar eru hálsbólga, hiti, mikil þreyta og slappleiki, verkir í vöðvum, höfuðverkur, svitaköst, magaverkir og fleira.
En hvernig smitast maður af einkyrningssótt ?
Unglingar á menntaskólaaldri eru mjög móttækilegir fyrir þessum vírus. Þegar þeir fara t.d. á sitt fyrsta busaball og kyssa sinn fyrsta koss, akkúrat strákinn sem ber vírusinn sem er búinn að kyssa fjórar aðrar stelpur það sama kvöld, þá er voðinn vís og nokkrum vikum síðar leggjast unglingarnir í rúmið með hálsbólgu sem reynist svo kannski vera þessi ömurlegi sjúkdómur.
Auðvitað verður maður að lifa lífinu þegar maður er ungur og upplifa sinn fyrsta koss en það er ágætis ráðlegging sem maður getur kennt unglingunum sínum fyrir fyrsta skólaballið en hún er:
ÞAÐ ER BANNAÐ AÐ DREKKA AF STÚT OG KYSSA GLAUMGOSA!
Svo krossum við foreldrarnir bara puttana fyrir þeira hönd og leyfum þeim að skemmta sér á busaballinu og í menntskólanum.
Sigrún Þöll Þorsteinsdóttir (f.15 feb 1975 – d. 8 apríl 2014) bloggaði á Pjatt.is í rúmlega tvö ár.
Sigrún Þöll starfaði sem tölvunarfræðingur, var dellukona, tækjasjúk og fagurkeri af lífi og sál. Að eigin sögn fannst Sigrúnu gaman að hlaupa, hjóla, drekka kaffi, huga að heilsunni, prjóna, lesa, taka ljósmyndir, rækta garðinn sinn og fleira og fleira. Blessuð sé hennar minning. Sigrún verður ógleymanleg þeim sem kynntust þessari dásamlegu konu.