Við systurnar ætlum saman í Reykjavíkurmaraþonið þann 20. Ágúst næstkomandi, hlaupa 10km, eða svona eiginlega labba eða jú kannski hlaupa af og til.
Fólki finnst við vera oft svolítið mikið klikk því þegar við hittumst því þá höldum við alltaf að við séum sjö ára, nema við högum okkur ekki eins því þá kom okkur ekkert sérstaklega vel saman (ég sjö og hún nýfædd, eða hún sjö og ég fjórtán) en þegar litla systir fór að búa og fatta að það væri gaman að fara í Bónus, fóru hlutirnir að breytast og við gátum spjallað um sameiginlega hluti.
En allavegana….
Reykjavíkurmaraþonið! Ég hef farið tvisvar en litla systir aldrei og þar sem okkur finnst svo gaman að fíflast, erum við búnar að panta okkur eins Henson galla og eins hlaupapeysur sem verður merktar bak og fyrir, en tilgangurinn er að eiga geggjaðan dag saman og brosa alla leiðina, en fyrir mörgum snýst Reykjavíkurmaraþonið akkúrat um það og í leiðinni hlaupa til góðs. Fyrir þá sem hafa aldrei farið og fyrir þá sem þora ekki að fara þá mæli ég klárlega með að endurskoða það viðhorf, en hlaupamót eru oft svo miklu meira en að hlaupa.
Þessir sem eru fremst eru kannski flest allir að keppa við hvorn annan en þeir sem eru fyrir miðju og aftast eru yfirleitt að keppa við sjálfan sig og eiginlega ALLTAF tekst manni að sigra sjálfan sig á einhvern hátt í hlaupum og í kjölfarið svífur maður í sæluvímu næstu daga eftir á, uppfullur af sjálftrausti og “Ég get allt!” tilfinningunni.
Til að hjálpa ykkur að taka ákvörðunina (á ég að fara, á ég ekki að fara, á ég að fara, á ég ekki að fara) er góð leið að skoða hlaupatíma frá fyrri hlaupum og þá mæli ég ekki með að skoða efsta tímann, heldur skrolla niður og skoða þá sem eru síðastir, því ég held að það sem við hræðumst kannski mest er að koma síðust í mark.
En ekki óttast!
Líkurnar á því að þú verðir síðust eru litlar (það er jú bara einn síðastur) og þrátt fyrir að það gerist, þá er það miklu minna mál en maður heldur (ég hef sko prófað það!). Það er enginn sem hlær að manni þegar maður kemur í mark heldur ÞVERT Á MÓTI fær maður þvílíku hvatninguna! Svo er ekki verra að hugsa til þess að á næsta ári er maður kannski hvatning fyrir aðra að mæta í hlaup.
Nú er tíminn til að skrá sig í Reykjavíkurmaraþonið, hóa saman vinum og vinkonum og byrja að æfa sig. Þú þarft ekki að vera búin að fara 10km fyrir hlaupið, sjö til átta km eru nóg (og ef þú kemst 5km þá kemstu 10km!), en ef þig langar að vera búin að skoða hringinn sem er farinn þá er bæði hægt að hjóla hann eða keyra en það fannst mér hjálpa mér í undirbúningnum fyrir hlaupið þegar ég fór í fyrsta sinn.
Ekki láta neinn tala þig niður og ekki taka þátt í því sjálf/ur því þú getur þetta alveg! Þú þarft bara að byrja…
Búðu til hitting á Facebook og dobblaðu fólk með þér í lið, taktu unglinginn með þér eða maka, vinkonu eða vin, byrjaðu rólega og vertu sæmilega kærulaus með þetta allt saman (en samt með það markmið að mæta í hlaupið og klára), og mundu að lífið er hérna til að vera hámarkað og þó þú trúir því kannski ekki, þá er þetta ein leið!
- Hér er hægt að skoða hlaupatölur síðustu ára.
- Hér er hægt að skrá sig í Reykjavíkurmaraþonið
- Hér er hægt að sjá hlaup sem eru framundan
- Hér er hægt að lesa ótrúlega skemmtilegar greinar um byrjanda í hlaupum (fyrsta er neðst)
Svo er hægt að gúggla “byrja að hlaupa” eða “how to start running” ef þú vilt finna þér hlaupaprógrömm eða meiri þekkingu.
Sigrún Þöll Þorsteinsdóttir (f.15 feb 1975 – d. 8 apríl 2014) bloggaði á Pjatt.is í rúmlega tvö ár.
Sigrún Þöll starfaði sem tölvunarfræðingur, var dellukona, tækjasjúk og fagurkeri af lífi og sál. Að eigin sögn fannst Sigrúnu gaman að hlaupa, hjóla, drekka kaffi, huga að heilsunni, prjóna, lesa, taka ljósmyndir, rækta garðinn sinn og fleira og fleira. Blessuð sé hennar minning. Sigrún verður ógleymanleg þeim sem kynntust þessari dásamlegu konu.