Víðtækar rannsóknir sýna fram á að kæfisvefn, svefnleysi og hrotur geta haft alvarlegar afleiðingar á kynlíf og nánd í samböndum.
Þið hjónin gantist kannski með hvað hitt hrýtur mikið á nóttunni en hugsanlega er þetta ekkert gamanmál og jafnvel kemur það niður á kynlífinu án þess að neinn geri sér það ljóst.
Ef marka má nýlega rannsókn á svefnvandamálum og afleiðingum þess staðfesta 61% fullorðinna að svefnvandinn komi beint niður á kynlífinu. Vandinn stafar ekki einungis af því að fólk fær ekki nægan svefn og er þar með of þreytt til að stunda kynlíf heldur geta kæfisvefn og hrotur haft sínar afleiðingar einnig.
Í þýskri rannsókn sem gerð var árið 2009 kom fram að 69% þeirra sem þjást af kæfisvefni eiga einnig við alvarleg kynlífsvandamál að etja. Þar má telja vandamál með reisn, erfiðleika við að kalla fram fullnægingu og almenna ófullnægju með kynferðislega ánægju.
Þetta er meðal annars talið orsakast af súrefnisskorti en fái líkaminn ekki það súrefni sem hann þarfnast er hætt við að framleiðsla á “nitric oxide” (efni sem er karlmönnum nauðsynlegt til að öðlast og halda reisn) falli niður í lágmark.
HROTUR
Fólk sem hrýtur er tvisvar sinnum líklegra en þau sem ekki hrjóta til að vera ósátt við kynlíf sitt. Niðurstöður rannsóknar sem framkvæmd var af Mayo Clinic í Rochester Minnesota sýna að hroturnar skapa fjarlægð í samböndum, bæði líkamlega, andlega og bókstaflega þar sem fólk endar oft á að sofa í sitthvoru herberginu til að þurfa ekki að vakna við hroturnar í makanum.
Hvað er til ráða?
Ef fólk tekur málin í sínar hendur eru oftast lausnir og ráð á reiðum höndum. Til dæmis er hægt að láta greina svefnvandann og þá getur lausnin verið svo einföld að ekki þarf annað en að skipta um stellingu og sofa þá ýmist á hlið eða baki, með minna eða meira undir höfðinu. Sumir gætu þurft að fá súrefniskút í svefnherbergið og öðrum gæti gagnast að fara í einfalda aðgerð sem opnar nasirnar.
Lykilatriðið er að vera á verði og leita lausna: Ef makinn segir að þú hrjótir á nóttunni og þú færð átta stunda svefn á en ert þrátt fyrir það þreytt/ur allann daginn – þá er mál að leita til læknis og láta kanna ástandið.
6 staðreyndir um svefn og svefnvandamál:
1. Svefntruflanir aukast með aldrinum. Lengri tíma tekur að sofna, uppvaknanir verða tíðari og erfiðara er að sofa fram eftir. Konur finna oftar fyrir þessum einkennum sem byrja gjarnan í kringum tíðarhvörf. Algengast er að svefnþörf sé 7-8 klst á sólarhring. Langir daglúrar draga úr góðum nætursvefni.
2. Meðal svefntími vinnandi bandaríkjamanna hefur minnkað um tuttugu mínútur síðasta áratug. Þetta þýðir að meðalmaðurinn sefur í sex klukkustundir og fjörtíu mínútur á hverri nóttu nú árið 2013.
3. Karlar á aldrinum þrjátíu til fjörtíu og fjögurra ára fara verst með sig en þrjátíu prósent þeirra segjast sofa minna en sex klukkutíma á hverri nóttu.
4. Sextíu og fimm prósent Bandaríkjamanna segjast hafa átt við svefnvandamál að stríða sem orsök af streitu.
5. Tuttugu og sex prósent kvenna segjast eiga erfitt með að sofna að minnsta kosti vikulega en aðeins sextán prósent karla.
6. Nítján prósent karla og kvenna á aldrinum fjörtíu og fimm til sextíu og fjögurra ára segjast missa svefn nokkrum sinnum í viku vegna streituálags.
Hér að neðan eru 8 einföld ráð sem geta komið að góðum notum við svefntruflunum. Ráðin eru fengin að láni af vef Landlæknis:
1. Mikilvægast er að fara á fætur á sama tíma á hverjum morgni. Forðastu að leggja þig á daginn og farðu í háttinn á sama tíma öll kvöld.
2. Ef þú getur ekki sofnað farðu fram úr og gerðu eitthvað annað t.d. lestu í góðri bók, hlustaðu á rólega tónlist. Leggðu þig aftur þegar þig syfjar á ný.
3. Dagleg líkamleg áreynsla leiðir til dýpri svefns, en óreglulegar æfingar einkum seint á kvöldin hafa engin eða slæm áhrif á svefninn nóttina eftir.Rólegheit að kveldi auðvelda þér að sofna. Forðastu mikla líkams áreynslu og hugaræsingu
4. Betra er að hafa daufa lýsingu í kringum sig á kvöldin.
5. Kaffi truflar svefn og rétt er að neyta þess í hófi og aldrei eftir kvöldmat. Sama máli gegnir um te og kók. Forðast ber neyslu áfengra drykkja. Alkóhól truflar svefn.
6. Létt máltið fyrir svefninn hjálpar mörgum að sofna, t.d. flóuð mjólk og brauðsneið.
7. Heitt bað stuttu fyrir háttinn getur auðveldað sumum að sofna.
8. Hafðu hitastig í svefnherginu hæfilega svalt. Sofðu við opinn glugga og hafðu dimmt í herberginu meðan þú sefur. Athugaðu að rúmið þitt sé þægilegt. Forðastu að horfa á sjónvarpið úr rúminu og reyndu að draga úr hávaða í kringum þig.
Fjölbreytileiki og góður fílíngur er mottó Pjattsins. Engar smellabeitur, bara endalaust af góðu efni, blogg, pistlar, uppskriftir, heilræði, heilsutips, menning, bækur, andlega hliðin og allskonar, allskonar enda höfum við verið í loftinu síðan 2009.