Nú eru jólin í aðsigi og fólk byrjað að baka og bauka og plana matseðil fyrir alla þessa söddu, notalegu og rólegu daga.
Á líkamsræktarstöðvum eru líka margir sem púla á brettunum og velta því fyrir sér hvernig eigi að komast í gegnum þessa átveislu… hvað með markmiðið mitt? Fimm sentimetrar af bumbunni fyrir 15 jan? Get ég það? Ó mæ gooddd… próóteiiinnnn!
Í fyrsta lagi er gott að minna á að fólk getur eðlilega allt sem það vill, að minnsta kosti vil ég fullyrða að allir geta uppfyllt hið einfalda markmið að grenna sig ef ásetningurinn er raunverulegur og viljinn eftir því. Hvort sem þú hendist á O.A fund og játar breyskleika þinn eða pantar tíma í einkaþjálfun þá á þetta ofgnóttarvandamál að vera hægt að leysa.
Í öðru lagi er vert að minna á að það er ekki lengur árið 1980.
Hvað á ég við með því?
Jú, við líðum ekki sama skort þegar kemur að matvælum! Það er búið að afnema innflutingshöft og það er nóg til að borða. Hjá mörgum er í raun matarveisla á hverjum degi, dag eftir dag.
Skoðum samanburðinn: Þegar ég var krakki var kóka kóla til dæmis heilmikið spari-fyrirbæri og alls ekki í boði að “drekka kókið” sem stóð þarna sperrt í líters glerflösku inni í ísskáp. Þetta var lúxusvara sem maður átti að láta í friði. Svo var það sopið eins og eðal rauðvín með páskadagssteikinni. Á afmælum fékk hvert barn eina 33 cl flösku. Þá var sko partý!
Á jólum gerði fólk vel við sig í mat og þá var etið á sig gat – Kjöt, konfekt og gosdrykkir. Uppstúfur og saltað hangiket, laufabrauð með smjéri. Jólin voru hin árlega átveisla en athugaðu að þetta var í þá daga sem offituvandinn þekktist ekki í heiminum og ofát var ekki raunverulegt vandamál.
Það er það hinsvegar í dag og við vesturlandabúar erum flest að vagga um í aukakílóum á einu eða öðru tímabili ævinnar hvort sem fólk er ríkt eða fátækt. Unglingar vappa um með kókbrúsann eins og gangráð og skyndibiti er á hverju strái. Það er af sem áður var þegar maturinn var planaður út vikuna og kókið var spari.
Þessvegna langar mig að minna sjálfa mig (og þig, ef þú vilt) opinberlega á að fara varlega að meltingarfærunum um jólin. Það er hreinlega ekki nauðsynlegt að troða sig út, maginn tekur bara við ákveðnu magni og þú færð örugglega eitthvað gott í gogginn aftur.
Munum að allt er best í hófi. Líka á blessuðum jólunum – lifum í takt við tímann.
Ég er af X-kynslóð, elska 70’s tónlist, finnst gott að fara í sund á kvöldin og á erfitt með arfa i görðum. Kýs fjölbreyti í lífið. Kann eina Eminem plötu utanað. Hef thing fyrir Marilyn Monroe, áhuga á feminisma og svona sitthvað fleira.