Eflaust allir finna fyrir sætindaþörf einhverntímann yfir daginn og stundum oft á dag. Við könnumst við það að hugsa um sælgætið sem við eigum inní skáp og á að vera fyrir aðra.
Það lætur okkur ekki í friði þar til við höfum opnað pokann og þá kunnum við ekki að telja lengur.
Það er staðreynd að sykur kallar á meiri sykur. Besta leiðin út úr hringnum er því að minnka sykurneyslu og ná þannig valdi yfir þessum tilfinningum. Þessi löngun er ekki vegna svengdar heldur löngun í bragð og lykt. Ef við borðum ekkert nammi í eina viku þá komumst við að því að það er alveg óþarfi og ekki eins gott þegar við fáum okkur fyrsta bitann aftur. Sykur er í raun fíkniefni sem við eigum auðvelt með að verða háð.
En til að eiga vinninginn yfir þessum löngunum þá er gott að taka þessi ráð til fyrirmyndar:
- Það er oft vani að fá sér eitthvað smá sætt eftir kvöldmat, seinnipartinn eða yfir sjónvarpinu á kvöldin. Best er að undirbúa sig og fá sér t.d. piparmyntute, ávöxt eða vera jafnvel búin að gera litla íspinna úr frosnum ávöxtum.
- Þessi sætindaþörf stendur yfirleitt í nokkrar mínútur og ef þú bara bíður og finnur annað til að gera þá getur þú gleymt henni því yfirleitt ertu ekki svöng heldur er það löngunin sem er sterkust.
- Settu þér markmið um að sleppa sælgæti og verðlaunaðu þig, skrifaðu niður og gefðu þér hrós eftir daginn. Það er gaman að verðlauna sig með eftirsóttu nuddi eða því sem þig langar virkilega í.
- Taktu fjölskylduna með í hollustuna og gerðu þetta skemmtilegt með ávaxtahlaðborði á laugardagskvöldi. Flottur og vel skreyttur ávaxtabakki er miklu meira freistandi en einhver nammiplastpoki.
- Farðu vel undirbúin í matarinnkaupinn. Ef þú ferð svöng í matarinnkaupin þá eru meiri líkur á að þú kaupir sætindi.
Sama hversu mikill nammigrís þú ert þá getur þú hætt!! Ekki nóg með það heldur munt þú missa aukakílóin, líða miklu betur og orkan og framkvæmdagleðin tvöfaldast.
Þá vitum við hvert er næsta markmiðið okkar!
Guðbjörg er iþróttakennari frá Íþróttakennaraskóla Íslands. Hún hefur verið í líkamsræktarbransanum frá því árið 1989. Alltaf tilbúin að taka að sér krefjandi verkefni. Haldið ýmis þjálfaranámskeið fyrir þolfimikennara og einkaþjálfara auk þess að vera stundakennari við HR íþróttafræði. Undanfarin 19 ár hefur hún starfað með Agústu Johnson en nú hefur hún stofnað sitt eigið fyrirtæki, G fit heilsurækt og elskar að taka þátt í vellíðan fólks og upplifa árangur í líkamsrækt. Guðbjörg á skilningsríkan eiginmann og þrjú yndisleg börn.