Þó ótrúlegt megi virðast þá erum við sjálf oft á tíðum okkar verstu óvinir. Hver kannast ekki við að hugsa niðrandi hugsanir á borð við úff hvað ég er feit, hárið á mér er ömurlegt, afhverju allar þessar bólur, ég vildi óska að ég væri klárari, afhverju á ég ekki meiri peninga eða hvers vegna gengur ekkert upp hjá mér?
… og margt fleira í þessum dúr.
Öll svona neikvæð hugsun dregur þig niður smátt og smátt og þó svo að þú sért almennt mjög hress, kát og hamingjusöm. Með tímanum hefur slík hugsun áhrif á þig og þína sjálfsmynd..
Það sem ég meina með að við sjálf séum oft á tíðum okkar verstu óvinir er einfaldlega það að það eru fáir sem tala jafn illa um þig og við þig eins og við sjálf eigum til með að tala um okkur.
Hér tala ég af reynslu því að ég gríp sjálfa mig reglulega við að hugsa svona um sjálfa mig og hef ég oftar en einu sinni eyðilagt daginn minn bara með því að troða svona heimskulegum hlutum inn í hausinn á mér en þá er sjálfs öryggið alls ekki nógu mikið og mér hreinlega líður illa.
Ég hef samt alltaf verið þekkt fyrir það að vera jákvæð, bjartsýn, hress og kát og ég sjálf myndi segja að það væri nú bara mjög góð lýsing á sjálfri mér því ég kýs að láta ekki neikvæðnina stjórna mér og reyni alltaf að hugsa jákvætt. Upplifa það góða sem dagurinn hefur upp á að bjóða og einbeiti ég mér að því að einblína frekar á kosti mína og annara heldur en galla okkar.
Lífið er bara svo miklu betra ef við reynum að sjá það góða í fólki og sjálfum okkur.
Jákvæð hugsun hefur svo margt gott í för með sér, meðal annars minnkar hún stress og eykur vellíðan, það eru meiri líkur á að þú náir markmiðum þínum, þú átt auðveldara með að umgangast fólk og eignast vini, þeir sem eru jákvæðir ná oftast meiri árangri og ef þú ert jákvæð þá eru meiri líkur á að draumar þínir verða að veruleika.
Hér eru nokkur góð ráð til að hjálpa þér að hugsa jákvætt
1. Hugsaðu um það sem þú græðir með því að tileinka þér jákvæða hugsun.
2. Taktu ábyrgð á hegðun þinni, ekki kenna öllum öðrum um þín mistök.
3. Skrifaðu niður tilfinningar þínar, bæði þegar þér líður vel og illa því það hjálpar þér að koma þeim frá þér.
4. Ef einhver segir eða gerir eitthvað sem særir þig, ekki leyfa því að ná tökum á þér því þá tapar þú. Það eru líka góðar líkur á því að viðkomandi líði bara mjög illa og taki það bara út á þér.
5. Skiptu út neikvæðum hugsunum í jákvæðar þegar að þú finnur þær hellast yfir þig. T.d. “Ég á aldrei eftir að ná þessu prófi” yfir í “Mikið rosalega er ég heppin að fá tækifæri til að taka þetta próf, ég geri bara mitt besta”.
6. Farðu í göngutúr og taktu eftir því hvað það er margt fallegt í kringum þig.
7. Settu þér markmið og náðu þeim því það er svo gott og gefandi.
8. Ekki leyfa öðrum að skilgreina þig og hver þú ert. Vertu þú sjálf.
9. Ef þú stjórnar ekki þínu eigin lífi þá mun einhver annar gera það.
10. Brostu, það er ótrúlegt hvað brosið þitt getur gert mikið fyrir þig og aðra.
11. Ekki dæma þig eða aðra, slepptu því að tala illa um fólk og réttu fram hjálparhönd.
Ef þér finnst ekkert vera að ganga upp prófaðu þá að skipta um rútínu, breyta um hugarfar og gera eitthvað allt annað því það gæti hjálpað þér mikið!
Bjarney Vigdís er mikil áhugamanneskja um allt sem viðkemur heilsu, uppeldi, eldamennsku, tísku, förðun, handavinnu, fegrun heimilisins og öðru pjatti. Hún er menntaður förðunarfræðingur og er jafnframt framúrskarandi húsfreyja sem heldur einnig úti sinu eigin bloggi. Hún býr á vesturlandi í litlum bæ ásamt manni sínum og 6 börnum.