Ég er að lesa bókina “Hvers vegna fitnum við” að sjálfsögðu til að leita að svarinu hvers vegna við fitnum?
Þar sem ég er ekki búin að lesa mikið í bókinni þá er ég ekki komin með svarið, en aftur á móti fór ég að velta fyrir mér afhverju ÉG fitna. Það kannski þjónar engum tilgangi að vera pæla í því afhverju aðrir fitna, væntanlega skiptir það mig mestu máli afhverju ég fitna.
Á leiðinni í lunch með vinkonu minn í dag fór ég að ræða við hana afhverju ég fitna og vall upp úr mér sjónarhorn sem ég hef ekki áttað mig á fyrr.
Til að útskýra mál mitt verð ég að viðurkenna að ég er óttarlega snobbuð gagnvart merkjum. Kalla það að vera fagurkeri, en það er bara snobbheiti yfir að vera snobbuð. Ef ég gæti, þá myndi ég bara kaupa Karen Millen kápur, Kron Kron skó, Gucchi veski og fleiri framandi merki. En þar sem fjárhagurinn er ekki frjálslegur á heimilinu þá vel ég að versla fötin mín í “venjulegum” búðum.
En ég er ekki eingöngu snobbuð í merkjavörur, ég er nefnilega líka með hrikalegt matarsnobb! Pakkasósur í boðum er eitthvað sem ég skil ekki, ég kaupi yfirleitt besta fáanlega hráefnið og jessússminn hvað ég er pikkí á kaffi! Þannig að þegar ég er að elda mat þá finnst mér hann ekki vera sérstakur nema hann sé gerður eftir kúnstarinnar reglum með kúnstarinnar hráefni.
Chanel nautakjöt, Boss sósur, Dior krydd.
Verst er að snobbið mitt í matarmálum brýst út í að gera MIKINN mat og HITAEININGARÍKAN, þannig að smjör, áfengi og rjómi er í raun Chanel, Boss og Dior matsins hjá mér og þar sem það er frekar ódýrt að elda upp úr smjöri, áfengi og rjóma (a.m.k. ódýrara en Karen Millen kjóll), þá ER SVOOO GOOOOOTTT að hafa heilögu þrenninguna á matardisknum.
Þetta er ástæðan fyrir því að ég fitna, af því að ég er með einhverjar fyrirfram hugmyndir um að matur smakkist ekki vel ef hann er ekki eldaður upp úr rjóma, með skvettu af hvítvíni og allt steikt upp úr smjöri. Þetta er að sjálfsögðu bölvuð vitleysa og er fáránlegt að finnast ég vera að missa af einhverju ef ég vel hollari kost.
Ástæðan fyrir því afhverju ég fitna, er að ég borða of mikið og maturinn inniheldur alltof margar hitaeiningar miðað við orkuþörfina mína. Það verður fróðlegt að lesa bókina áfram og fá að vita afhverju allir hinir fitna og hver veit nema ég komist að einhverri annarri niðurstöðu varðandi afhverju ég fitna?
Sigrún Þöll Þorsteinsdóttir (f.15 feb 1975 – d. 8 apríl 2014) bloggaði á Pjatt.is í rúmlega tvö ár.
Sigrún Þöll starfaði sem tölvunarfræðingur, var dellukona, tækjasjúk og fagurkeri af lífi og sál. Að eigin sögn fannst Sigrúnu gaman að hlaupa, hjóla, drekka kaffi, huga að heilsunni, prjóna, lesa, taka ljósmyndir, rækta garðinn sinn og fleira og fleira. Blessuð sé hennar minning. Sigrún verður ógleymanleg þeim sem kynntust þessari dásamlegu konu.