Þunglyndur en dyggur lesandi sendi Pjattinu þennan sæta pistil með von um að hennar leiðir gagnis fleirum. Ekki veitir af!
Eru það veruleikaflótti, draumsýn eða sjálfsbjargarviðleitni sem kemur okkur í gegnum skammdegið? Hvernig förum við að þessu? Lyf laga ekki allt.
Ég þekki konur sem fylgjast alltaf með fasteignaauglýsingum, spá, spekúlera og fara að skoða hús þó þær séu ekkert endilega í hugleiðingum að flytja, sumar ganga svo langt að fylgjast með dánarfregnum og athuga hvort ný fasteign komi í framhaldi á markað…
Að láta mig dreyma heldur í mér lífinu yfir vetrarmánuðina á Íslandi
Ég er ekki mikið í þeim hugleiðingum, er meira segja orðin slöpp við að lesa tískublöð og láta mig dreyma um Chanel tösku eða Balmain kjól sem ég mun sennilega aldrei hafa efni á að kaupa.
Ég er hinsvegar ALLTAF að fylgjast með utanlandsferðum, ég er á póstlista hjá öllum ferðaskrifstofum Íslands og nokkrum erlendis og ég skoða ÖLL tilboð frá þeim, ég vafra um netið á dohop og fleiri ferða- leitarvélum og skipulegg draumafríið trekk í trekk, sendi fyrirspurnir á hótel, leigumiðlanir, finn ódýrustu fargjöldin, bílaleigubílana og draumastaðina en oftar en ekki verður ekkert úr ferðunum enda bara venjuleg millistéttarkona í vinnu með tvöfalda vísitölufjölskyldu og hef ekki efni á að fara mikið í utanlandsferðir, hvað þá með alla fjölskylduna.
Að láta mig dreyma heldur í mér lífinu yfir vetrarmánuðina á Íslandi, skammdegið hellist yfir mig af fullum þunga og það sem heldur mér gangandi er að senn koma blóm í haga og vonin um að ég vinni í lottó eða fái brjálæðislega gott ferðatilboð sem fleytir mér suður á bóginn þar sem sólin kyssir vanga og pálmatré dúa fallega í golunni.
Draumar og vonir eru þannig nauðsynlegir öllum, ef maður hefur von þá hefur maður tilgang, það er gott að hafa í huga þegar myrkrið, kuldinn og veðurofsi Íslands er að buga okkur.
Önnur ráð til að höndla skammdegið eru:
- Taka D vítamín (sumir segja þrefaldan skammt)
- Hreyfa sig (mæli með Hot yoga, það er svo hlýtt og rakt í Hot yoga sölum, eins og í Karabíska hafinu)
- Fara i sund (innanhúss fyrir kuldaskræfur)
- Fara út daglega þegar bjart er, að fara í og úr vinnu í myrkri án þess að sjá til dagsbirtu er ávísun á uppgjöf og bölsýni
- Gera gott úr myrkrinu með kertaljósum, teppum og góðu afþreygingarefni heima við (bækur, þættir, bíómyndir, föndur)
- Hlæðu, ekki festast í bölsýni og reiði, hittu reglulega fólk sem fær þig til að hlæja eða finndu það kómíska í hversdagsleikanum, Hlátur lengir lífið og gerir það svo miklu skemmtilegra
- Láttu þig dreyma og haltu í vonina um betri tíð hvort sem það er veraldlegs eða andlegs eðlis, hugsaðu um það sem gerir þig glaða og ímyndaðu þér að draumurinn muni rætast.
Ég vona að þessi litlu ráð hjálpi einhverjum sem eru jafn illa stödd af skammdegisþunglyndi og ég, annars finnst mér vanta vefsíðu “getmeoutofhere.is” sem hjálpar fólki að komast burt af skerinu fyrir lítinn pening og STRAX þegar skammdegið er að buga okkur.
(PS strax er EKKI teygjanlegt hugtak)