Hvað gerist ef maður reynir að fara eftir bókinni og fylgja helstu heilræðum í sambandi við hvíld, hreyfingu og mataræði? Hver verða áhrifin?
Eins og ég sagði frá í gær er plan mitt að reyna, í fyrsta sinn á ævinni, að vera bókstafstrúar í þessum efnum í nokkrar vikur, einn dag í einu. Auðvitað er ekki hægt að gera alltaf, allt alveg 100% rétt svo ég ætla að miða við 80 prósent og leyfa breyskleika mínum að njóta afgangsins.
Ég ætla að fjalla um…
- Hollan mat
- Vítamín
- Líkamsrækt
- Vatnsdrykkju
- Svefn
- Húðumhirðu
- Andlegu hliðina
Taka eitt fyrir í senn og byrja nú á því að skrifa um reynslu mína af…
HOLLU MATARÆÐI
Þegar ég hóf átakið hafði ég verið í þessu klassíska sumarsukki og hreyfingarleysi. Meðvitað fór ég gegn betri vitund og leyfði mér allskonar vitleysu og of margar hitaeiningar m.v. hvað ég hreyfði mig lítið. Það kannast flestir við þetta. Svo var stigið á bremsuna í lok ágúst.
Hollt mataræði eru engin geimvísindi
Lengi hef ég verið þeirrar skoðunar að við þurfum engin stórkostleg fræðirit til að borða hollt. Við vitum að manneldisráð leggur til að við fáum 5 skammta af ávöxtum og grænmeti á dag. Það vita allir að sælgæti er fitandi og óhollt. Það vita allir að kók er fitandi og óhollt og mikið kökuát er slæmt fyrir tennur, vöxt og mallakút. Amma sagði mér að velja heilhveitibrauð en ekki fransbrauð. Við vitum að við eigum að taka lýsi. Að mínu viti snýst þetta allt saman mikið, mikið meira um að fara eftir því sem við vitum nú þegar en að flækja málin. Þetta snýst meira um hvað við borðum EKKI en hvað við borðum og þannig eigum við að fylgja betri vitund.
Kikkstart með pokameðferð
Til að auðvelda mér þrautina í upphafi átaksins skellti ég mér beint í matarbakkana hennar Sollu á GLÓ, svona til að kikkstarta þessu en fjölmargir bjóða nú slíkar lausnir. Hver dagur byrjaði þannig á kínóagraut í möndlumjólk með smá ávöxtum út á, svo var það spínatsafi, ávaxtasmoothie og góðir hráfæðiréttir í hádegis og kvöldmat (hráfæði er annað orð yfir matreiðslu á grænmeti – og engin stórkostleg vísindi ;)).
Matarbakkar af þessu tagi eru mjög sniðugir fyrir manneskju sem er að koma sér af stað og ég myndi mæla með því að prófa svona þrjá daga til að byrja með . T.d. frá mánudegi til miðvikudags (flestir hafa ekki efni á að gera þetta í langan tíma en dagurinn kostar 3.900).
Ég “hreinsaði” strax í burtu sykurþörfina og vandi mig af brauðáti á augabragði. Eftir pokana fékk ég mér svo einungis safa í einn dag, safa og smá reyktan lax á hrökkbrauði þann næsta og svo safa og kvöldmat þann þriðja. Ef ég hefði ekki farið þá leið hefði líka verið sniðugt að byrja átakið með þessum hætti, gera safa í þrjá daga til að venja líkamann af sykri og þ.h. og koma sér svo í takt með hollu mataræði.
Grænn-smoothie…
- Lúka af spínati
- 2 cm engifer (eða 1.5)
- Appelsína
- Glas af heilsusafa frá Floridana, granateplasafi eða annar góður safi úr kælinum
- Hálfur banani
- Mynta
- 1-2 msk af Udo’s Omega 3
- 2 tsk af Dr. Gillians Turbo Greens eða sambærilegt
- …og annað grænt ef ég á það, t.d. smá avokado, gúrka, alfaalfa spírur eða annað sem ég tel passa með þessu.
Þessu er bara skutlað í blenderinn þar til það verður mátulega mixað til að drekka. Stundum sleppi ég banananum eða nota grænt epli í stað appelsínu.
Eftir því sem hefur liðið á þetta hefur mér fundist betra að fá mér ávaxtasmoothie fyrri partinn og svo grænmetis seinnipartinn, jafnvel í staðinn fyrir kvöldmat. Mér skilst líka að ávextir fari best í líkamann þegar maður byrjar daginn á þeim.
Þessi er alveg frábær:
- Bolli af frosnu mangó
- Bolli af blönduðum berjum
- Banani
- Appelsína
- Glas af Heilsusafa frá Floridana eða Granateplasafi
- Msk af hnetusmjöri frá Sollu
- Msk af Udo’s Omega 3
Þessi er dásamlega bragðgóður og saðsamur en hnetusmjörið og bananinn gefur prótein og fyllingu. Það má líka nota möndlumjólk og svo er gott að setja tvær döðlur út í. Bara sælgæti!
Minni diskar, minni skammtar, mjórra mitti!
Um leið og magamálið hefur minnkað verður þörfin fyrir mikinn mat minni. Ég hef líka vanið mig á að borða af litlum diskum og borða minna á kvöldin en daginn. Oft fæ ég mér bara reyktan lax með Dijon sinnepi og smá eggjahræru á kvöldin. Eða smoothie, salat með kjúkling eða ofnbakaðan fisk með salati. Rynkeby eða annar grænmetissafi er jafnan skammt undan yfir daginn og epli eða kornstöng ávallt í töskunni til að forðast skyndilausnir í matnum.
ÁHRIF:
Áhrifin af þessu mataræði í rúmar 3 vikur núna eru meiriháttar. Í fyrsta lagi verður mallinn sléttur. Hann hættir að blása út eins á smáhveli og mér líður mikið betur. Er laus við spenning. Ég er margfalt orkumeiri og hef betri einbeitingu. Á mikið auðveldara með að vakna. Meltingin hefur komist í besta lag og er nú jafn áreiðanleg og flóð og fjara. Húðin verður líka fallegri og yfirbragð hennar bjartara. Það gera m.a. hneturnar, Omega 3, granatepli, berin og laxinn en allt þetta á að stuðla að heilbrigði í húðinni.
Í raun gengur prógramm, sem lofar tíu ára útlitslegri yngingu á tíu vikum, út á að allar húðfrumurnar endurnýja sig á tíu vikna fresti og með því að gefa líkamanum réttu næringuna stuðlar maður að betra útliti. Þá þarf einnig að taka með hreyfingu, hvíld, krem og vítamín en það verður tekið fyrir í næstu pistlum um þetta ofurátak mitt.
LOKAORÐ: Fyrir þær sem ekki eru vanar hollu mataræði legg ég til að byrjað sé á að skoða hugafarið og viðhorf til matar. Þetta snýst allt um hugarfarið. Þar byrjar þetta. Hver er sinnar gæfu smiður. Við vitum að fita er fitandi og sykur er fitandi. Við vitum hvað virkar, vandinn er að fara eftir því. Einbeittu þér meira að því að fylgja því eftir sem þú veist nú þegar en að reyna að fara eftir flóknum kúr. Þú VEIST að það er betra fyrir þig að fá þér epli en Sómasamloku. Fáðu þér epli!
Netið er fullt af allskonar ráðum og við Pjattrófur höfum mikið skrifað um mögleika fyrir þær sem vilja léttast:
HÉR er t.d. vikumatseðill þar sem þú mátt meira að segja fá þér rauðvín.
HÉR og HÉR eru uppskriftir að orkustöngum.
HÉR er önnur uppskrift að smoothie frá Rósu og HÉR er fyrsti pistillinn í greinasafni Sigrúnar fyrir þær sem vilja hætta að borða sykur.
Meira á morgun – þá mun ég fjalla svefninn…
Ég er af X-kynslóð, elska 70’s tónlist, finnst gott að fara í sund á kvöldin og á erfitt með arfa i görðum. Kýs fjölbreyti í lífið. Kann eina Eminem plötu utanað. Hef thing fyrir Marilyn Monroe, áhuga á feminisma og svona sitthvað fleira.