Í byrjun september tók ég það stóra skref að byrja í fjarþjálfun í líkamsrækt þar sem ég á mér þann draum að hlaupa geðveikt hratt og slá persónuleg met hægri vinstri.
Ég fann það út í sumar að ég hefði nú bara gott af því að láta einhvern tuska mig smá til og taka til í æfingaprógramminu mínu og matarræði og var þessi ákvörðun þar af leiðandi tekin.
Nú er ég farin að æfa fimm sinnum í viku og hef gaman að, hleyp og lyfti, teygi mig og toga allt með þeim tilgangi að koma vel undan vetri og losna við einhver aukakíló.
Ég á nokkrar vinkonur sem eru single og þær spyrja oft með uppgjafatón hvar allir strákarnir haldi sig og kvarta svolítið undan því í leiðinni að finna sér ekki maka.
Ég hugsa oft að það sé ekkert skrítið að konur finni sér ekki maka þegar þær mæta í vinnuna átta tíma á dag, fara svo í saumaklúbba á kvöldin og skrá sig svo á námskeið þar sem eru bara konur, en jæja.
En nú er ég algjörlega búin að finna út hvar strákarnir eru!
Þeir eru í ræktinni að rífa járnin!
Reyndar finnst mér alltaf jafn fyndið að fylgjast með því hvað þeir horfa alveg sjúklega mikið á sig í speglinum, hnykla vöðvana og maður sér þá alveg segja “Ú jeeee” í huganum. Ég sem hélt að það væri bundið við konur að dáðst að sér í speglinum. Ætli ég verði ekki eitthvað að endurskoða það viðhorf upp á nýtt 🙂
Við erum kannski ekkert svo ólík ? Viljum flest öll líta vel út ?
En hvað um það… Þið þarna single leidís…. Ef þið viljið hitta stráka, þá er kvöldstund í ræktinni málið, ekki saumaklúbburinn!
Sigrún Þöll Þorsteinsdóttir (f.15 feb 1975 – d. 8 apríl 2014) bloggaði á Pjatt.is í rúmlega tvö ár.
Sigrún Þöll starfaði sem tölvunarfræðingur, var dellukona, tækjasjúk og fagurkeri af lífi og sál. Að eigin sögn fannst Sigrúnu gaman að hlaupa, hjóla, drekka kaffi, huga að heilsunni, prjóna, lesa, taka ljósmyndir, rækta garðinn sinn og fleira og fleira. Blessuð sé hennar minning. Sigrún verður ógleymanleg þeim sem kynntust þessari dásamlegu konu.