Er þessi fyrirsögn ekki sannfærandi ?
Nei sennilega ekki… og leyfðu mér að útskýra…
Það er sagt að hugurinn beri mann hálfa leið en fyrir marga getur jákvætt viðhorf hjálpað til að komast í betra form.
Jákvætt viðhorf og hugafar getur komið þér ansi langt í að vinna bug á þreytu þegar þú ert á æfingu en það er ótrúleg orka sem felst í því að segja við sjálfa þig þegar þú ert alveg að gefast upp “Þú getur þettaaaaaa”, “Þú ert sterk, koma svooooooo!” og oftar en ekki hef ég notað þessa aðferð þegar ég er úti að hlaupa og er alveg á síðustu orkunni jafnvel í miðri æfingu!
Einu sinni var ég til dæmis alltaf að segja við sjálfa mig “löng og mjó, löng og mjó… og blá” þegar mig vantaði kraft. Það var reyndar stuttu eftir að Avatar var sýnd í bíó en þessi setning kom mér alltaf til að brosa og ég skottaðist áfram aðeins lengra, eða aðeins hraðar.
Að sjá sig í anda ná markmiðum sínum hjálpar meira en þig grunar og áður en þú ferð á æfingu, út að hjóla, ert að fara taka sundprettinn eða lyfta lóðunum skaltu sjá þig fyrir þér hjóla á met tíma t.d. í vinnuna, synda 100m lengra en síðast, lyfta þyngra eða hlaupa hratt hratt hratt á hlaupaæfingu. Vittu til þú ferð margfallt jákvæðari af stað og verður líklegri til að toppa sjálfa þig en ef þú ferð með neikvæða hugsun og viðhorf á æfinguna.
Ég ímynda mér stundum að ég sé að hlaupa yfir marklínuna í Reykjavíkur Maraþoninu á met tíma sæl og glöð (og þreytt). Set meira segja hendurnar upp í loftið þegar ég er hlaupandi og segi WHOWHO!… Ég veit, ég er stórskrítin þegar ég er úti að hlaupa en þetta gefur mér orku og ég kemst lengra.
Þú þarft ekki að vera afrekskona í íþróttum til að sjá þig í anda lifa heilbrigðu lífi og ná árangri. Með því að ímynda þér aðstæður þar sem þú ert við völdin á þessu sviði, sjá sjálfa þig í jákvæðu ljósi og njóta þess, breytir þú viðhorfi þínu gagnvart hreyfingu og ert líklegri til að ná markmiðum þínum og skottast á æfingu.
Segðu við sjálfa þig “ÉG GET ÞETTA” og vittu til að þú ert líklegri til að bæði GERA betur og GETA meira.
Sigrún Þöll Þorsteinsdóttir (f.15 feb 1975 – d. 8 apríl 2014) bloggaði á Pjatt.is í rúmlega tvö ár.
Sigrún Þöll starfaði sem tölvunarfræðingur, var dellukona, tækjasjúk og fagurkeri af lífi og sál. Að eigin sögn fannst Sigrúnu gaman að hlaupa, hjóla, drekka kaffi, huga að heilsunni, prjóna, lesa, taka ljósmyndir, rækta garðinn sinn og fleira og fleira. Blessuð sé hennar minning. Sigrún verður ógleymanleg þeim sem kynntust þessari dásamlegu konu.