Um daginn prófaði ég Hot fitness tíma á námskeiðinu sem ég er á í Hreyfingu og ég get alveg vottað það að þetta er sko heitt hreysti.
Ég var ekki búin að kynna mér hvað væri gert í tímunum, hélt kannski að þetta væri svipað og hot yoga, nema meiri fitness. Ekki að ég hafði hugmynd um hvað sú kenning þýddi, en ég notaði það ekki sem afsökun og dreif mig áðan í tímann.
Hreyfing talar um á heimasíðunni sinni að Hot Fitness sé næsta skref á eftir Hot Yoga og HD Fitness en æfingarnar eru meira krefandi og unnið er m.a. með eigin þyngd. Í tímanum eru einnig notaðir litli mjúkir boltar sem hjálpa til að auka styrk á efrihluta líkamans, en ef manni finnst of efitt að nota þá, þá er hægt að nota bara eigin líkamsþunga.
Æfingarnar voru hrikalega góðar og mátti heyrast áreynslustunur um allan salinn. Vá hvað var tekið vel á því! og kosturinn við æfingarnar var að það var enginn hamagangur, allt gert í rólegheitum og maður fékk hrikalega mikið út úr hverri æfingu.
Ég gat reyndar ekki gert allar æfingarnar 100% og stóð ein upp úr og var það þegar við gerðum Yoga æfinguna sem kallast (að ég held) tré. Þá komst ég að því að ég er ekki tré.
Ég hlakka til næst, það er alveg á hreinu!
Sigrún Þöll Þorsteinsdóttir (f.15 feb 1975 – d. 8 apríl 2014) bloggaði á Pjatt.is í rúmlega tvö ár.
Sigrún Þöll starfaði sem tölvunarfræðingur, var dellukona, tækjasjúk og fagurkeri af lífi og sál. Að eigin sögn fannst Sigrúnu gaman að hlaupa, hjóla, drekka kaffi, huga að heilsunni, prjóna, lesa, taka ljósmyndir, rækta garðinn sinn og fleira og fleira. Blessuð sé hennar minning. Sigrún verður ógleymanleg þeim sem kynntust þessari dásamlegu konu.