Undanfarin misseri hefur orðið ákveðin vitunarvakning hjá Íslendingum hvað varðar heilsu og er æ algengara að sjá fólk í göngutúrum, á hjólum eða að hlaupa sér til heilsubótar.
Á morgnana þegar ég keyri í vinnuna dáist ég að fólki sem er hlaupandi meðfram Sæbrautinni, hjólandi með fartölvuna á bakinu eða á röskri göngu og hugleiði ég oft hvert fólkið er að fara eða hvort hreyfingin sé stunduð til að líða betur, svona rétt áður en vinnudagurinn byrjar.
Það er nefnilega þannig að þegar við hreyfum okkur þá líður okkur betur. Hreyfingin þarf ekki að vera í formi ofreynslu og að við endum með harðsperrur þannig að það verður erfitt að setjast á klósettið næstu þrjá daga, heldur er einfaldlega ótrúlega nærandi að fara bara út í fríska loftið og jarðtengja sig, finna vindinn í hárinu, fylgjast með umhverfinu breytast á milli árstíða og njóta þess að vera hér og nú.
Það er nefnilega þannig að þegar við hreyfum okkur þá líður okkur betur.
Eins og þú eflaust hefur tekið eftir er hlaupaæði á Íslandi en hægt og rólega (eða eiginlega hratt og ákveðið) er að koma yfir landann hjólaæði líka. Nú nægir ekki að kaupa þriggja gíra hjól með þæginlegum hnakki, heldur skiptir máli að hafa hjólið létt, diskabremsur eru komnar í tísku, það þykir flott að eiga racer hjól og þá dugar ekkert minna en tuttugu og eitthvað gíra hjól. Þetta er orðið svo flókið að erfitt er að fylgjast með tískubylgunni og vera partýfær í hjólasamræðum á kaffistofunni.
Ég rakst á góðan vef sem hvetur til hjólreiða á skynsaman hátt. Fyrir meðal manneskjuna sem ætlar sér ekki að kaupa hjólabuxur með púða á rassinum, sérstakan hjólajakka og hraðamæli sem er GPS tengdur, að sjálfsögðu með þeim tilgangi að slá öll heimsins met sem hægt er að slá, en vefurinn heitir http://hjolreidar.is/.
Mér fannst einstaklega skemmtilegt að lesa um kosti hjólreiða en þar er fjallað um hvernig hjólreiðar lengja lífið, jákvæðar hliðar á hjólreiðum og margt fleira sem er einstaklega fróðlegt.
Á vefnum er einnig fjallað um börn og hjólreiðar en í dag er alltaf auðveldara og auðveldara að taka börn með sér í skemmtilega hjólreiðatúra. Kíktu á hjolreidar.is, vefurinn er virkilega góður!
Sigrún Þöll Þorsteinsdóttir (f.15 feb 1975 – d. 8 apríl 2014) bloggaði á Pjatt.is í rúmlega tvö ár.
Sigrún Þöll starfaði sem tölvunarfræðingur, var dellukona, tækjasjúk og fagurkeri af lífi og sál. Að eigin sögn fannst Sigrúnu gaman að hlaupa, hjóla, drekka kaffi, huga að heilsunni, prjóna, lesa, taka ljósmyndir, rækta garðinn sinn og fleira og fleira. Blessuð sé hennar minning. Sigrún verður ógleymanleg þeim sem kynntust þessari dásamlegu konu.