Aldrei hefði ég trúað því hvað einn hjólatími getur verið sjúklega öflugur þegar kemur að því að ná púlsinum upp! En ég skellti mér í einn slíkan í Hreyfingu á Laugardaginn.
Ég hef nú alveg tekið á því á hjóli en þetta var sko engin sigling meðfram Sæbrautinni á sólríkum sumardegi, úff úff.
Þar sem ég er svoddan nörd hvað varðar tölur og tækni, þá var mín í essinu sínu þegar ég frétti að við ættum að vera með púlsmæli á okkur. Kennarinn lét okkur svo æfa miðað við púlsinn en niðurstöðum frá mælinum er varpað upp á skjá.
Þessi aðferð lét mig sko reyna á mig og var ég með púlsinn á fullri ferð allan tímann! Myndirnar hér að neðan sýna hvað hjartað fékk að pumpa, en það verður gaman að bera saman fyrsta og síðasta tímann og athuga hvort það sé einhver munur þegar námskeiðinu líkur.
Kosturinn við hjólatímana er sá að þegar maður hjólar þá er lítið sem ekkert högg á líkamann, þannig að þetta er mjög góð leið fyrir þá sem langar að svitna og púla án þess að reyna t.d. mikið á hnén, en ef maður miðar þessa tíma við t.d. hlaup þá eru margir sem eiga auðveldara með að taka hjólatíma en að fara á brettið eða út að hlaupa.
Ef þig langar að púla, þá eru þetta tímarnir!
Sigrún Þöll Þorsteinsdóttir (f.15 feb 1975 – d. 8 apríl 2014) bloggaði á Pjatt.is í rúmlega tvö ár.
Sigrún Þöll starfaði sem tölvunarfræðingur, var dellukona, tækjasjúk og fagurkeri af lífi og sál. Að eigin sögn fannst Sigrúnu gaman að hlaupa, hjóla, drekka kaffi, huga að heilsunni, prjóna, lesa, taka ljósmyndir, rækta garðinn sinn og fleira og fleira. Blessuð sé hennar minning. Sigrún verður ógleymanleg þeim sem kynntust þessari dásamlegu konu.