Nú er ég komin á bls. 100 í bókinni Hvers vegna fitnum við. Ég hélt því fram um daginn að ég fitnaði af því að ég borðaði fleiri hitaeiningar en ég brenndi, en skv. því sem ég er búin að lesa er það ekki málið.
Þar sem ég er ekki komin lengra en 100 bls. er svarið ekki komið, en höfundur hefur komið inn á kenningu sem ég oft á tíðum haldið fram (með smá pirringi) ásamt því að opna hugann minn fyrir því að kannski er önnur ástæða afhverju ég fitna.
Bókin segir að með aukinni hreyfingu aukist matarlystin. Hafa verið gerðar rannsóknir á fólki þar sem t.d. kyrrsetufólk var þjálfað í að hlaupa maraþon. Maður skyldi ætla að fólk sem fer allt í einu út að hlaupa ætti að mjókka og mjókka þar sem hlaup kallar á töluverða brennslu, en þegar mælingar voru gerðar á þátttakendum höfðu karlarnir ekki lést að meðaltali nema um 2. kg af líkamsfitu á 18 mán, en konurnar höfðu ekki breyst neitt!
Kemur þá höfundur inn á þá kenningu að ef maður bætir við hreyfingu þá aukist matarlystin.
Ég hef svo oft gagnrýnt þá aðferð að byrja í ræktinni á fullu og minnka hitaeiningamagnið niður í 1200-1500 hitaeiningar á sama bretti þar sem að mínu mati er sú aðferð dæmd til að mistakast til lengri tíma þar sem meiri hreyfing kallar á meiri orku, en þegar við förum svo að borða FÆRRI hitaeiningar þá er voðinn vís.
Ég veit ekki. Ég stend enn í þeirri trú að hitaeiningar inn og hitaeiningar út skipti máli, en ég hef svo sem ekkert annað en persónulega reynslu í þeim málum. Enn bíð ég spennt eftir svarinu…
Hvað heldur þú ?
[poll id=”36″]Sigrún Þöll Þorsteinsdóttir (f.15 feb 1975 – d. 8 apríl 2014) bloggaði á Pjatt.is í rúmlega tvö ár.
Sigrún Þöll starfaði sem tölvunarfræðingur, var dellukona, tækjasjúk og fagurkeri af lífi og sál. Að eigin sögn fannst Sigrúnu gaman að hlaupa, hjóla, drekka kaffi, huga að heilsunni, prjóna, lesa, taka ljósmyndir, rækta garðinn sinn og fleira og fleira. Blessuð sé hennar minning. Sigrún verður ógleymanleg þeim sem kynntust þessari dásamlegu konu.