Margir eflaust með strengi og harðsperrur þessa dagana. Nýjar æfingar, byrjun eftir hlé og aðlögun líkamans að nýju mynstri kalla á viðbrögð. Þeir sem þekkja harðsperrur finna fyrir góðri tilfinningu meðan aðrir finna kannski til ónota. En hvað er þetta?
Harðsperrur
Skipta má strengjum upp í tvo flokka, acute strengi og DOMS.
– Acute strengir: Aumleiki vegna uppsöfnunar á umbrotsefnum efnaskiptanna í vöðvum. Acute strengir koma fram strax eftir átök en vara aldrei lengur en í nokkrar klukkustundir. Einkennin geta verið máttleysi í viðkomandi vöðvum og titringur. Við yfirleitt fljót að jafna okkur og gott bað er vænlegt.
– DOMS (Delayed onset muscle sorness) eða seinkaðir strengir: Strengirnir koma fram 24-48 klukkustundum eftir átök og geta varað í nokkra daga eftir atvikum. Strengirnir koma fram vegna lítilsháttar skemmda á vöðvafrumum viðkomandi vöðva. Þessar skemmdir framkalla bólguviðbrögð sem leiða til vökvasöfnunar og þrýstings í vöðvanum. Saman framkalla þessi viðbrögð
sársauka og eymsli sem við í daglegu tali köllum strengi eða harðsperrur.
Strengirnir verða til þess að hámarkskraftmyndunargeta vöðvans minnkar en hún kemur aftur til baka þegar strengirnir hverfa úr vöðvunum.
Algengur er sá misskilingur að teygjur eftir átök komi í veg fyrir strengi. Raunin er samt önnur. Seinkaðir strengir koma eins og áður sagði fram vegna bólguviðbragða í kjölfar skemmda innan vöðvans. Þær skemmdir er ekki hægt að laga með því að teygja á vöðvum og koma strengirnir fram með sama hætti hvort sem teygt er á eður ei.
Þegar til lengri tíma er litið er að mörgu leyti gott fyrir vöðvann á fá strengi því þeir skapa verndandi áhrif til lengri tíma og verða
vöðvarnir betur í stakk búnir til að takast á við sambærileg átök eftir að strengirnir hverfa. Þannig að þeir verða sterkari segi ég 😉
Til eru fyrirbyggjandi aðferðir til að minnka líkur á miklum strengjum. T.d. má hafa þjálfunarákefðina stigvaxandi og hlusta á líkamann. Velja léttari lóð í byrjun og auðveldari útgáfu af æfingunni. Annars eru strengir í raun hluti af upphafi þjálfunar og hluti af því að koma sér í gott form.
Ég get lofað því að líkaminn er svo fljótur að aðlagast æfingunni að þegar hann gerir sömu æfingu aftur þá fær hann alls ekki sömu strengi.
Guðbjörg er iþróttakennari frá Íþróttakennaraskóla Íslands. Hún hefur verið í líkamsræktarbransanum frá því árið 1989. Alltaf tilbúin að taka að sér krefjandi verkefni. Haldið ýmis þjálfaranámskeið fyrir þolfimikennara og einkaþjálfara auk þess að vera stundakennari við HR íþróttafræði. Undanfarin 19 ár hefur hún starfað með Agústu Johnson en nú hefur hún stofnað sitt eigið fyrirtæki, G fit heilsurækt og elskar að taka þátt í vellíðan fólks og upplifa árangur í líkamsrækt. Guðbjörg á skilningsríkan eiginmann og þrjú yndisleg börn.