Á síðasta ári eignaðist ég dreng númer tvö. Hann var tekinn með keisaraskurði en ég bætti á mig á meðgöngunni um 25 kílóum því gat ég ekki byrjað að hreyfa mig almennilega fyrr en í lok apríl/byrjun maí.
Manni er sagt að gefa líkamanum og öllu saman þrjá mánuði til að jafna sig, enda er keisaraskurður engin smá aðgerð.
Eftir um fjóra mánuði í ræktinni var ég alveg að gefast upp, lítið gekk að léttast og styrkjast en samt fór ég í ræktina sex sinnum í viku og fannst ég ekki sjá neinn árangur. Ég var við það að gefast upp og datt í volæði og vonleysi en kláraði samt 10 km í Reykjavíkurmaraþoninu á þrjóskunni.
Ég ræddi við eiganda líkamsræktarstöðvarinnar sem ég stundaði og hún ráðlagði mér að breyta æfingunum. Ég fór í meiri brennslu og ákafari styrktaræfingar. Þorði aldrei að taka neitt almennilega á því vegna hræðslu út af brjóstamjólkinni. Brjóstagjöfin mátti sko ekki klikka þannig að ég fór hægt í sakirnar fyrst og bætti smátt og smátt við þyngd og erfiðari brennslu eftir því sem leið á æfingarnar og dagana.
HOT BOD IN A BOX
Meðal þeirra æfinga sem ég prófaði eru nokkrar eftir líkamsræktarsnillinginn Jillian Michaels og heita Hot Bod In A Box. Þar eru 9 æfingarprógröm og inniheldur hvert spjald ýmsar æfingar sem samanstanda af brennslu og styrk. Ég mæli hiklaust með því að prófa þessar æfingar þær eru ótrúlega skemmtilegar og góðar.
Þetta breytti líkamanum mínum til hins betra, ég fór loksins að sjá mun og passaði í fötin mín aftur og endurheimti þar með fataskápinn minn. Andleg líðan mín varð mun betri og ég varð öll hressari og frískari en ég er þannig manneskja að ég elska líkamsrækt í öllu formi og líður afskaplega vel eftir góða æfingu þegar endorfínið flæðir um kroppinn!
PRÓFAÐU EITTHVAÐ NÝTT
Með þessum pistli vill ég hjálpa þér ef þú ert við það að gefast upp þrátt fyrir að vera búin að puða og púla í marga mánuði, finndu það sem hentar þér, hvort sem það er þrisvar sinnum í viku eða sex sinnum í viku, stokkaðu upp í æfingunum þínum og prófaðu eitthvað nýtt því það hefur sýnt sig og sannað að við erum ekki öll steypt í sama mótið og sama líkamsræktin hentar ekki öllum.
Mundu líka að gleyma ekki sjálfri þér og rækta þig líka, þú átt það skilið!
Rannveig er útskrifuð sem hársnyrtir en leggur nú stund á nám í fjölmiðlafræði. Henni finnst fátt skemmtilegta en að stunda margskonar líkamsrækt og er ekki hrædd við það að prófa nýjungar í þeim efnum, Rannveig er þessi týpíska meyja sem verður að hafa allt tip top, ofur pjöttuð að mati margra en lætur sér fátt um það finnast. Hún á tvo stráka og er harðgift.
Fylgdu Rannveigu á Instagram rannveigjonina og á Twitter @MissisRannveig