Nýtt ár er gengið í garð og líkamsræktarstöðvarnar fyllast af fólki, áramótheitin flæða og eins og við flestar vitum þá springa margar á loforðum og fyrirheitum þegar janúarmánuður er varla hálfnaður.
Það fauk pínulítið í mig þegar ég las það sem fjórtán ára stúlka skrifaði á Facebook síðuna sína um hvernig samfélagið hagar sér gagnvart útliti okkar á hverjum degi.
Jú, glanstímarit, internetið og tónlistarmyndbönd eru yfirfull af konum sem eru í glæsilegu formi enda hafa þær allar efni á því að hafa fólk í kringum sig sem hjálpar þeim við barnapössun, mataræði og hreyfingu.
EN þurfum við ekki svolítið að líta í eigin barm líka? Hverjum er þetta að kenna? Jú OKKUR! VIÐ erum samfélagið VIÐ baktölum, gagnrýnum og setjum út á aðra!
Við vinkonurnar sátum saman á spjalli um daginn í hádegisbröns, við eigum allar börn og fórum að ræða það hvernig fólk talar um hvort annað. Og út frá því – hvernig viljum við að börnin okkar tali um aðra?
Allar erum við af mismunandi stærðum og gerðum. Sumar okkar eiga erfitt með að missa kíló en það sem gleymist líka er að sumar eiga erfitt með að BÆTA á sig kílóum og fá því gagnrýni fyrir það.
Sjálf veit ég um dæmi þar sem ung stúlka með aukakíló fékk á sig viðurnefni vegna þess. Hún grenntist mjög mikið í kjölfarið og ekki á heilbrigðan hátt en samt sem áður, mörgun árum seinna, er hún ennþá með þetta viðurnefni á sér. Þrátt fyrir kílóamissi og þegar er talað um hana þá er sagt- æji þú manst… “Fríða feita”.
Hvar byrjar baktalið? Hugsanlega inn í eldhúsi eða á kaffihúsi þar sem lítil eyru hlusta á og tala um það við vini sína sem segja jafnvel foreldrum sínum og svo framvegis.
Lítum í eigin barm
Það eru ekki bara Hollywoodstjörnur sem setja viðmiðin heldur við sem erum í samfélaginu.
Við erum afar duglegar að setja út á allt og alla, gagnrýna klæðnað, holdafar, heildarútlitið og fleira persónulegt.
Manneskja sem er með aukakíló utan á sér þarf ekki að fá stanslausa áminningu um það, hún veit það best sjálf hvernig hún lítur út og vill eflaust vera nokkrum kílóum léttari. EKKI fyrir samfélagið heldur SJÁLFA sig. Þó við viljum ekki viðurkenna það þá erum við allaf í samkeppni við náungann. Ég hef verið tæp hundrað kíló eftir erfiða meðgöngu og ég hef líka verið mjög grönn og það er jafn slæmt að vera of grönn eins og að vera of feit. Það getur líka verið erfitt að fita sig eins og að létta sig, einhvern veginn er aldrei hægt að gera öllum til geðs.
Elskum okkur sjálfar
Ég veit ekki um þig en það er ÉG sem set mestu pressuna á sjálfa mig og reyni helst ekki að hugsa út í hvað öðrum finnst. ÉG vill vera í mínu besta formi fyrir sjálfa mig EKKI samfélagið.
Mitt mottó er heilbrigð sál í hraustum líkama, þó ég sé með nokkur aukakíló utan á mér þá þýðir það samt ekki að ég sé ekki í góðu formi, ég gæti kannski tekið þig í nefið í sprettum eða annari hreyfingu!
En að lokum… ég las frábæra tilvitnum um daginn og hún hljóðar svo:
“Passaðu þig á því hverjum þú treystir, ef einhver ræðir aðra við þig þá hikar sá sami ekki við það að ræða ÞIG við aðra.
Þetta er eitthvað sem ég hef ákveðið að tileinka mér á nýju ári en það er að gera mitt besta í að tala aðeins fallega um aðra.
Gleðilegt ár!
Rannveig er útskrifuð sem hársnyrtir en leggur nú stund á nám í fjölmiðlafræði. Henni finnst fátt skemmtilegta en að stunda margskonar líkamsrækt og er ekki hrædd við það að prófa nýjungar í þeim efnum, Rannveig er þessi týpíska meyja sem verður að hafa allt tip top, ofur pjöttuð að mati margra en lætur sér fátt um það finnast. Hún á tvo stráka og er harðgift.
Fylgdu Rannveigu á Instagram rannveigjonina og á Twitter @MissisRannveig