Allir þeir sem hafa dottið í þann fúla pytt að byrja að reykja vita að það er síður en svo hlaupið að því að hætta þessum ófögnuði.
Ég er ein af þeim sem svo blessunarlega hef náð að hætta að reykja.
Ég ætla ekki að fara að gera lítið úr neinum með því að reyna að halda því fram að þetta hafi verið auðvelt…. Það var það ekki… Þetta var alveg stórkostlega erfitt og getur stundum verið það ennþá!!!
Og ekkert bara fyrir mig, heldur fyrir alla sem þurftu að þola mig í gegnum geðbrestina sem fylgdu- og ekkert bara í nokkrar vikur, heldur nokkra mánuði!
Geðbrestirnir voru það öflugir og það stórbrotnir að enn þann dag í dag dæmi ég manninn minn pínulítið í hljóði fyrir að hafa ekki farið frá mér á þessum tíma, þó svo að ég þakki Guði á sama tíma fyrir það því þetta var allt þess virði og rúmlega það!
Mamma, sjáðu ég er með ullu!
Það sem varð til þess að ég tók endanlega ákvörðun um að drepa í, er að ég var að leika við son minn einn daginn. Allt í einu lítur hann á mig með trélit á milli vísi og baugfingurs og segir “mamma, sjáðu mig, ég er með ullu eins og þú!!” (ég sagðist alltaf vera að fá mér ullu þegar ég fékk mér sígarettu). Þarna fékk ég bara að sjá það svart á hvítu hvurslags fyrirmynd ég var. Mér líkaði ekki það sem ég sá og tók ákvörðun um að nú skyldi þessi förunautur minn til alltof margra ára fá að fjúka með skít og skömm!
Undraappið mikla!
Það sem mér hefur fundist vera besta hjálpin í reykleysinu er app sem ég náði mér í daginn sem ég hætti að reykja, – QuitNow.
Það er til alveg urmull af “hættaðreykja” öppum, en mér leist best á QuitNow af því það er með widget banner (samsung) sem maður getur haft á skjánum og þarf þar af leiðandi ekki að opna appið sjálft í hvert skipti sem mann þyrstir í tölulegar staðreyndir.
Á þessum banner kemur fram hversu marga daga maður hefur verið hættur, hversu mikill tími er EKKI búinn að fara í að reykja, hversu margar sígarettur maður hefur EKKI reykt, og hversu miklum peningum maður hefur EKKI kveikt í! Það er alveg ótrúlegt hvað þessar – við fyrstu sýn – sakleysislegu tölur eru fljótar að detta upp í skelfilegar upphæðir og yndisleg tilfinning sem ég upplifi í hvert skipti sem ég skríð upp í næsta hundrað þúsund sem ég hef sparað mér!!
Hér fyrir neðan sjáið þið mínar statistics eins og þær líta út í dag miðað við að ég reykti pakka á dag:
Ég ákvað að nota plástur fyrstu vikuna eftir að ég hætti, svona til að koma mér yfir versta hjallinn, en síðan þá hef ég farið þetta aðallega á hnefanum, mikið með aðstoð appsins en þó mest á óbilandi og yfirgengilegri þvermóðsku. Það eru svo margir sem spurja mig hvað ég hef gert til að hætta að reykja.
Hérmeð afhjúpa ég mína töfraformúlu í þeirri veiku von að hún geti hjálpað einhverjum. Hún þarf ekki að vera þín töfraformúla, en hún virkaði fyrir mig. Ég mæli með því að ALLIR sem eru að gæla við tilhugsunina um að hætta að reykja nái sér í þetta app, það er alveg stórmerkilega mikil sálfræði í þessum tölum og svo ótrúlega mikið pepp í þessu!
Eins og áður sagði, þá ætla ég ekki að sykurhúða þetta, það er andskotanum erfiðara að hætta að reykja, og fíkn í eðli sínu er alltaf eins.
Þessvegna tekst þér ekki að hætta að reykja fyrr en það kemur frá sjálfum/sjálfri þér- en ef þú virkilega vilt fá tól í beltið til að berjast við bölvaðann sígarettustubbinn, þá vonandi hef ég núna rétt þér einhver sem virka.
Hrafnhildur, eða Krummi, er mamma, förðunarfræðingur, leikkona, kærasta, systir, dóttir, handverkskona og listakona svo fátt eitt sé nefnt. Ung flutti hún frá Sauðárkróki til Reykjavíkur þar sem hún lærði förðunarfræði en seinna flutti hún til Alabama, USA þar sem hún lærði leiklist. Eftir nokkur ár í Bandaríkjunum lá leið hennar aftur til Sauðárkróks og hún er því rödd landsbyggðarinnar á meðan pjattrófa. Hrafnhildur er fædd 21. febrúar árið 1980 og er fiskur.