Flestir kannast við það að líkamsrækt er okkur mjög heilsusamleg og vita það er sniðugt að stunda hana. Fleiri virðast meðvitaðir um það að æfingar eins og hlaup, skokk, göngur og fleira sem kemur hjartslættinum til að slá hraðar, eykur öndun og flytur meira súrefni um líkamann séu þær æfingar sem á að stunda. Við könnumst jafnvel sum við cardio-kanínur svokallaðar sem hlaupa fleiri tugi kílómetra á hlaupabrettum í ræktinni.
Færri virðast vita af því hversu gagnlegar styrktaræfingar eru. Það er nefnilega gott og gilt að stunda reglulega cardio æfingar sem koma púlsinum í gang og blóðinu á hreyfingu, en ég mæli með því að þú reynir að skipta tímanum þínum milli þess að hlaupa, hoppa og skoppa og að lyfta lóðum.
Hér eru nokkrar ástæður fyrir því að þú ættir að lyfta lóðum:
Aukin hreyfigeta
Reglulegar styrktaræfingar stuðla að auknum vöðvamassa og styrk í vöðvum, sem gerir það að verkum að dagleg störf eru auðveldari. Að lofta og ganga með innkaupapokana úr búðinni, að leika við börnin, að vinna í garðinum, allt þetta og meira til verður auðveldara ef vöðvum líkamans er reglulega viðhaldið með styrktaræfingum.
Aukinn styrkur í bol (e. core) minni líkur á bakverkjum
Bolurinn, eða búkurinn eins og er oft sagt, er það sem tengir saman útlimi okkar, hendur og fæturna. Með styrktaræfingum er búkurinn, þessi kjarni styrktur og sterkur búkur styður við mjóbakið og minnkar líkur á bakverkjum. Sterkir vöðvar í bolnum gera að verkum að við lyftingar (eins og gerist oft í daglegu lífi, til dæmis við að lyfta kössum eða pokum) eru það vöðvarnir sem taka mesta álagið, en ekki hryggurinn og liðamótin.
Aukinn efnaskiptahraði
Með styrktaræfingum eykur maður vöðvamassa sinn. Með auknum vöðvamassa eykur maður daglega brennslu líkamans, það þýðir að líkaminn brennir ekki bara meiru þennan klukkutíma eða tvo sem maður æfir, heldur líka í gegnum allar hinar klukkustundir sólarhringsins! Með aukinni brennslu er mögulegt að borða meira (ég er sérlega hrifin af þessari staðreynd, ég hugsa að fleiri séu sammála mér). Aukinn vöðvamassi og aukin brennsla gera einnig að verkum að það er auðveldara að losa sig við fitu og að halda henni af.
Verndar liðamót
Ef styrktaræfingar eru gerðar rétt styðja þær og styrkja liðamótin. Aukinn styrkur vöðva í kringum liðamótin stuðla einnig að auknu jafnvægi og viðheldur sveigjanleika liðamóta.
Sveindís Þórhallsdóttir útskrifaðist í vor með BS gráðu í sálfræði frá Háskóla Íslands en býr nú í fallegum bæ á Finnlandi þar sem hún leggur stund á mastersnám í íþrótta- og æfingasálfræði. Sveindís er jafnframt einkaþjálfari, heldur úti fjarþjálfun á vefsíðu sinni og hefur mikinn áhuga á hvers kyns hreyfingu og heilbrigði.
Pole fitness á hug hennar allan og fríkvöldunum er oftar en ekki varið í að teygja fyrir framan sjónvarpið. Hún á eitt stykki frábæran kærasta og dreymir um að bæta kisu á heimilið.