
Nú er skammdegið að færast yfir okkur Íslendinga og þá verður mikilvægara fyrir okkar D-vítamín hrjáðu þjóð að borða meira af fiski.
Fiskur er ríkur af allskonar hollustu og næringarefnum sem gera okkur ákaflega gott en þar má m.a. nefna Omega-3 fitusýrurnar, lágt fituinnihald og D-vítamín.
Selen er svo enn ein ástæðan til að auka fiskneyslu en fiskur inniheldur mikið selen og talið er að það hreinlega lengi ævina miðað við niðurstöður danskrar rannsóknar sem jafnframt bendir til að mataræði sem kennt er við Norðurlöndin sé hollara en svonefnt Miðjarðarhafsmataræði.
Norðurlandamataræðið einkennist af fiski, rúgbrauði, káli og rótarávöxtum og samkvæmt dönsku rannsókninni þurfa konur að borða a.m.k 35 g af fiski eða skelfiski á hverjum degi til þess að lengja ævina en karlar 41 g. Þetta eru ekki stórir skammtar eins og sjá má á þessum tölum en allra jákvæðustu áhrif selens felast í að það vinnur gegn myndun lungna- og blöðruhálskirtilskrabbameins.
Hollast er að borða ofnbakaða fiskrétti eða soðinn fisk 3 í viku að minnsta kosti, grænmetis og kjötrétti á móti.