Þá er föstunni lokið en segja má að þetta hafi verið nokkuð áhugavert ævintýri.
Í gær var næst síðasti dagurinn og í dag hefur verið einskonar lendingardagur. Þá fær maður sér safa, en líka soðið egg og dýrðlegt hrökkbrauð með smjöri og hunangi ásamt súpu, te, safa og fleiru. Ég er reynslunni ríkari og veit nú hvernig þetta gengur allt fyrir sig ef mig langar að gera þetta aftur.
Líklegast er heppilegast að fasta rétt eftir áramót eða að vori. Það er mjög gott að eiga einn frídag frá vinnu þegar maður fastar af því það er svo gott að hvíla sig á meðan. Þannig væri best að taka föstudag eða mánudag í frí og njóta þess að vera heima á föstunni. Gott er að fara í heita gufu, bað eða potta meðan maður fastar og svo er frískandi að þurrbursta húðina daglega til að ræsa blóðrásina vel. Einnig er nauðsynlegt að stunda jóga eða aðra hreyfingu.
Persónulega fannst mér mestur ávinningur í að virkja sjálfsagann. Lengi vel hefur mér þótt ótrúlegt að hugsa til þess að það væri hægt að fasta, hélt það væru bara járnkarlar sem gætu það en ég komst að því að þetta er ekki eins erfitt og það virðist. Og í raun bara skemmtileg og forvitnileg reynsla.
Mikið hefur verið rætt hvort fasta sé af hinu góða eða ekki. Ég sé ekki hvað getur ekki verið gott við föstuna. Maður neytir góðra, lífrænna safa, bæði jurta og grænmetis, og fær þá næringu sem kroppurinn þarf. Fullorðnir, heilbrigðir einstaklingar geta leyft sér að fasta en það þarf að vanda til verksins. Fastan er líka frábær fyrir þá sem glíma við of háa tölu á vigtinni.
Til að einfalda mér lífið keypti ég Wellness Week föstu frá Biotta. Biotta er svissneskt fyrirtæki sem hefur í mörg ár sérhæft sig í að framleiða hreina, lífræna safa. Föstur eru fastur hluti af lífstíl ótal margra þjóðverja og svisslendinga og hafa verið um áratugaskeið enda mikil heilsumenning í báðum löndum. Wellness Week pakkinn er úthugsaður og inniheldur allt sem maður þarf til föstunnar en mér fannst mjög gott að þurfa ekki að standa í neinu umframstússi í kringum þetta. Kassinn kostar í kringum 8000 kr og fæst í Heilsuhúsinu.
Að lokum birti ég hér sýnishorn úr heimildarmyndinni Fat, Sick and nearly Dead.
Myndin, sem er margverðlaunuð, segir sögu manns sem fastar á safa í 60 daga og ferðast um Bandaríkin þar sem offituvandinn er, eins og flestir vita, gífurlegur:
[youtube]http://www.youtube.com/watch?v=x9SGWcZwk7c[/youtube]Ég er af X-kynslóð, elska 70’s tónlist, finnst gott að fara í sund á kvöldin og á erfitt með arfa i görðum. Kýs fjölbreyti í lífið. Kann eina Eminem plötu utanað. Hef thing fyrir Marilyn Monroe, áhuga á feminisma og svona sitthvað fleira.