Þetta gerist yfirleitt þegar veturinn skellur á – fólk byrjar að horfa inn á við, gera plön, detta í rútínuna… og svo eru það sumir sem horfa niður á við… t.d. á magann og lærin og reka upp stór augu.
Oftar en ekki kemur þetta svolítið búsældarlegt undan sumrinu, enda almennt meira um gleðskap þegar sólin kætir landann og hiti á grillinu allar helgar. Þá nennum við ekki í ræktina, erum brosandi værukær með hvítt í sólinni. Svo allt í einu er ekki hægt að renna gallabuxunum upp og þá er hlaupið af stað… en þetta gerist yfirleitt með haustinu.
Við Guðrún Halldórs innanhúshönnuður og penni hér á Pjatt.is erum í þessum frábæra og fjölmenna hópi fólks en til að hressa upp á okkur ákváðum við að skrá okkur á námskeið í Hreyfingu sem kallast Fimm stjörnu Fit og er hannað að fyrirmynd Tracy Anderson æfingakerfisins. Hún er m.a fræg fyrir að koma Gwyneth Paltrow og Madonnu í toppform og hefur verið útnefnd meðal 100 áhrifaríkustu einstaklinga Bandaríkjanna af Time magazine.
Kerfið hennar byggir á því að það er lítið um hamagang í tímum heldur er fókusinn á margar endurtekningar og æfingar sem byggja mestu á því að þú notar eigin líkama sem mótstöðuafl.
ENGIN LÆTI – BARA SKEMMTILEGT
Ég skrifaði fyrst grein um Tracy Anderson hér á Pjatt.is fyrir réttu ári síðan og er í raun búin að bíða lengi eftir því að komast í nákvæmlega svona æfingar. Þær henta nefninlega kvenfólki afskaplega vel. Við þekkjum það flestar að hafa lítinn áhuga á því að verða buffaðar skessur sem ganga um með 15 kg handlóð í annari og túnfisksdós í hinni… og þetta kerfi er einmitt EKKI þannig.
Það miðar að því að móta langa, granna og kvenlega vöðva, kúlurass og vel skorinn “sixpakk”. Kerfið er blanda af pilates, yoga og almennum styrktaræfingum en Tracy sjálf á bakgrunn í dansi. Við notum létt lóð en endurtökum svo oft að maður finnur hreinlega vöðvana styrkjast eftir hvern tíma.
FRÁBÆR TÓNLIST
Það er hin snjalla Anna Eiríksdóttir sem kennir okkur á námskeiðinu en hún sjálf er líkt og Tracy Anderson, mjög nett og í frábæru formi.
Kerfið lofar okkur að grunnbrennsla líkamans muni aukast við æfingarnar og með reglubundinni ástundun mun hver kona ná fram sínum besta líkamsvexti.
Eitt af því besta við þessa tíma er líka tónlistin. Vanalega finnst mér tónlist í flestum hóptímum næstum óbærileg en Anna blandar saman fönký jazztónlist við dægurlög á borð við Retro Stefson og Florence and the Machine. Algjör eðall og mikil gleði fyrir tónlistarunnandann mig.
Konurnar sem eru með okkur á þessu námskeiði eru allar hæstánægðar með það en flestar eru að koma í annað sinn. Við Guðrún mælum algjörlega með þessu en það er hægt að velja um marga tíma og kostnaðurinn er ódýrari en að fara í einkaþjálfun þó árangurinn sé alls ekkert minni.
Tékkaðu á FIMM STJÖRNU FIT ef þú vilt koma þér í toppform með okkur fyrir áramótin. Það er ALDREI of seint að byrja!
Ég er af X-kynslóð, elska 70’s tónlist, finnst gott að fara í sund á kvöldin og á erfitt með arfa i görðum. Kýs fjölbreyti í lífið. Kann eina Eminem plötu utanað. Hef thing fyrir Marilyn Monroe, áhuga á feminisma og svona sitthvað fleira.