Ert þú í átaki fyrir sumarið? Ætlaru að vera bomba í bikiníi á Benedorm í sumar? Þú ert þá ekki ein. Við erum allar komnar á tuttuguasta djúskúrinn, búnar að klippa út kolvetnið og hamast svo í spinningtímum að heimilis hamsturinn myndi skammast sín.
Ekki láta mig draga úr þér, hóflegur metnaður er af hinu góða.
Hvert ertu samt að stefna með þetta? Ferðu langt með spínat í poka? Kemur ekki haust eftir þetta sumar? Ætlaru þá bara að klæða þig í leggins og síða peysu og troða speltinu lengst inn í skáp, eða þangað til að þú skráir þig á næsta námskeið í Í kjólinn fyrir jólin?
Ég hef verið þarna, trúið mér. Með gulrætur í poka hékk ég á skíðatækinu, klippti út myndir af Victoria’s Secret englum og bað jesúbarnið um að hjálpa mér að komast í stærð 26 í Diesel – gallabuxum. Stundum komst ég nálægt markmiðinu en í raun ekki.
Sko, málin standa þannig að ég er 175 cm á hæð, og ég er með stór brjóst-stóran rass-stóran persónuleika. Maður megrar það einfaldlega ekki af sér, ekki nema með því að svindla á sjálfum sér og lífsins gæðum.
Á endanum, samferðarfólki mínu til mikillar gleði, horfðist ég í augu við það að ég mun aldrei fá lánaðar buxur hjá Kate Moss. Með hollu matarræði og skörungsskap í lyftingarsalnum má samt gera mikið af góðum hlutum.
Göfugri markmið en að koma sér í niðurþröngar gallabuxur
Það er hægt að vinna að mótaðri magavöðvum og stinnari rass og mótuðum öxlum en það er ekkert til sem heitir að breyta algjörlega um líkamsvöxt nema:
A) fitness undirbúnings lífstíll (ég þekki þetta góða fólk, þau borða ekki eintómar eggjahvítur nema rétt fyrir mót og æfingarprógrammið er fyrir fólk í kepnnishug)
eða
B) lýtaaðgerðir
Fyrir mér eru þessir tveir möguleikar ekki í boði. Ég vil líta vel út, satt er það en það eru bara 24 tímar í deginum og ég eyði max. 90 mínútum af þeim í ræktinni. Það eru nefnilega til göfugri markmið en að koma sér í niðurþröngar gallabuxur.
Ef ég endurtek mig þá eru hófleg markmið af hinu góða. Okkur líður vel andlega og líkamlega þegar við náum þeim. Ef markmiðin hefta okkur hinsvegar í því að lifa lífinu þá eru þetta ekki markmið. Þá er þetta bara fullkomnunarárátta og hún gefur okkur aldrei neitt nema minnimáttarkennd og lélegt sjálfstraust. Trúið mér, ég hef svo oft grenjað með vigtina í höndunum að ég ætti að vera titluð ,,Sérfræðingur í að gera óeðlilegar kröfur til líkamsvaxtar”, í símaskránni.
Settu þér samt eitthvað markmið fyrir sumarið. Það má alveg vera að ætla grennast fyrir sundlaugarbakkann. Það má líka vera eitthvað alveg fáránlegt eins og læra panta pizzu á tjékknesku. Prufaðu það! Það er ótrúlega gefandi. Hafðu það samt hugfast að þú græðir á markmiðinu til lengri tíma, ekki bara þangað til að komið er að sólarlandaferðinni.
Nú er ég á leið út að hlaupa. Ekki til að grennast. Ekki til að geta borið mig saman við aðrar konur. Ekki til að heyra fólk hrósa mér fyrir að líta vel út.
Nei, ég ætla hlaupa í Reykjavíkurhlaupinu í sumar. Það býr ekkert annað að baki, mig langar einfaldlega að hlaupa í því til að sýna sjálfri mér að ég get það. Og það lætur mér líða vel. Betur en að passa í óþægilegar buxur sem ég nota aldrei hvort eð er.
Ég er örugglega meiri skvísa rennandi sveitt í rauða Íslandsbankabolnum, andstutt og búin að hella bláum Gatorade yfir hárið á mér. Það er ég viss um!
Anna Margrét er fædd í Reykjavík árið 1987, en hefur alið manninn í Svíþjóð, Suður Ameríku og víðar.
Anna er krabbi, og þykja þeir hinir kátustu. Tíska, förðun, jafnrétti, skrif og ferðalög um Afríku eru nokkur af hennar áhugamálum.