Ein helsta ástæða þess að við höldum bara áfram að þyngjast eða stöndum alveg í stað þegar við höldum að við séum að gera nóg til að létta okkur er sú að við erum enn að taka inn of margar hitaeiningar, – og þá oft í formi þess sem við trúum að sé heilsufæða.
Hér er stutt yfirferð yfir matvæli sem annaðhvort eru bara ekki nógu holl fyrir okkur eða innihalda hreinlega miklar hitaeiningar sem gæti hindrað okkur í að komast í rétta átt.
1. SALÖT
Til þess að hádegisverðurinn breytist ekki í hitaeiningahimnaríki, skaltu velja þér ferskt grænmeti af salatbarnum í stað þess sem er löðrandi í olíu eða sósu. Forðastu brauðmolana og gervibeikonið en bættu við eggi. Einfalt salat sem samanstendur af káli, tómötum, papriku, lauk, gulrótum og brokkólí inniheldur lágmarksfitu og u.þ.b. 100 hitaeiningar. Ef þú bætir nokkrum skeiðum af gráðaostasósu út á salatið, breytast hlutföllin talsvert. Þá eru hitaeiningarnar skyndilega orðnar 455 talsins og fitan mikil. Salatsósur sem innihalda olíu eða majónes hafa sömu áhrif.
________________________________________________________________
2. BRAUÐ
Fjölmargar girnilegar brauðtegundir innihalda smjör eða ólífuolíu. Hið ítalska focaccia brauð inniheldur t.d. fjórum sinnum meiri fitu en venjulegt brauð og þar að auki er meira salt í því. Brauðhorn (criossant) innihalda nær 13 g af fitu og um 188 hitaeiningar.
Ef þú vilt borða brauð en jafnframt gæta að heilsu þinni, er ráðlagt að borða daglega (eða sjaldnar) 1-2 sneiðar af venjulegu brauði (grófu eða fjölkorna).
________________________________________________________________
3. DIETDRYKKIR
Venjuleg dós af gosi inniheldur 99% sætt vatn og 1% lit og bragðefni. Það eru 8 teskeiðar af sykri í slíkri dós. Dietdrykkir innihalda gervisætu eins og aspartame (NutraSweet) sakkarín og acesulfame-K.
Þeir eru að vísu hitaeiningarsnauðir en hafa ekkert næringargildi og þeir eru langt frá því að vera heilsusamlegir. Sumt fólk hefur fengið ofnæmisviðbrögð vegna neyslu dietdrykkja og allir heilsugúrúar mæla gegn því að þeirra sé neytt.
________________________________________________________________
4. MORGUNKORN
Ef þú borðar rétta morgunkornið þá ert þú að byrja daginn á frábæran hátt. En hafðu hugfast að sumar tegundir morgunkorns eru allt að því 50% sykur og eru sneisafullar af fitu. Margar tegundir eru heldur ekkert sérlega trefjaríkar.
Varastu morgunkorn sem er í umbúðum sem lofa stökku, spennandi korni.
Oftast er þeim stökkleika náð fram með því að STEIKJA KORNIÐ Í SYKRI OG OLÍU. Stundum stendur á pökkum af morgunkorni að það sé sykurlaust en er samt sætt á bragðið því út í kornið er bætt hunangi eða ávaxtasafa til þess að ná fram sætubragði.
________________________________________________________________
5. ÁVAXTASAFI
Ávaxtasafi í pappírsumbúðum hefur fengið sérstaka hitameðhöndlun en það eyðileggur hluta af þeim vítamínum og steinefnum sem í drykknum eru. Sykraðir safar geta innihaldið 50-100 g af sykri. Oft er meira af sykri en ávöxtum í svokölluðum ávaxtadrykkjum.
Besti kosturinn er nýkreistur safi úr ferskum appelsínum.
________________________________________________________________
Prófaðu að endurskoða þessi 5 atriði og lestu svo HÉR um 10 ástæður þess að þér tekst ekki að léttast.
Hrund Hauksdóttir er blaðamaður, hljóðbókalesari, nautnaseggur og pjattrófa. Hún stundaði háskólanám í fjölmiðlun í Bandaríkjunum og félagsfræði við HÍ. Hrund ritstýrði Vikunni frá 2000-2002 og var eins konar partípenni sunndagsútgáfu Morgunblaðsins 2006-2009, þar sem hún skrifaði undir heitinu Flugan en undanfarin 6 ár hefur Hrund skrifað kynningarefni fyrir Frjálsa Verslun.
Nýjasta Pjattrófan er miðbæjarmaddama sem les bækur af ástríðu, stundum nokkrar í einu, enda er hún í tvíburamerkinu og skiptir hratt og auðveldlega um skoðun.