Ágúst byrjun. Í fyrsta skipti á ævinni var ég mætt í einkaþjálfun í Hreyfingu. Ég dreg andann djúpt inn og í leiðinni reyni ég að draga inn magann, með miklum erfiðismunum.
Ég ætla deila með ykkur, kæru lesendur, minni upplifun af því að vera í einkaþjálfun hjá hinum geðþekka Ingó og hvernig mín nálgun er á heilbrigt líferni.
Á komandi vikum mun ég skrifa nánar um æfingarnar sjálfar, hvernig ég er að fóta mig í matarræðinu og loks hvernig mér miðar. Stefnan er tekin á jafnvægi, heilbrigði og jákvæða sjálfsmynd, sem ég því miður hef ekki alltaf haft.
Pantaði einhver extra stórar mjaðmir með brauðstöngum?
Nú er ég ekki alls óreynd í að hreyfa mig. Frá 3-18 ára stundaði ég ballett af miklu kappi. Snemma varð það mér ljóst að ég yrði aldrei ballettdansari, sérstaklega þegar sumarið eftir fermingu fól í sér mjaðmir, brjóst og rass sem ég kannaðist ekkert við að hafa pantað.
Hefuru séð Ódette, príma-ballerínuna í Svanavatninu dansa sig til dauða; örvæntingarfull, svikin og á barmi þess að deyja úr ástarsorg… með hossandi risabrjóst og dillandi stóran rass?
Nei, ekki ég heldur.
Eftir tvítugt ákvað ég að byrja stunda líkamsrækt og það af miklum móð. Matarræðið var dauðhreinsað og fór ég í fasistaherferð gegn hinum ýmsu matartegundum. Sem er í raun alls ekki gott. Það eina sem það gerir er að á endanum mun maður springa, troða í sig allri þeirri óhollustu sem maður kemst yfir og einhverstaðar sitja starfsmenn Nóa-Siríus og klóra sér í höfðinu yfir því að allt súkkulaði á landinu er uppselt.
Jó-jó týpan
Kílóin fara. Kílóin koma. Kílóin staðna, koma, fara, koma, fara, staðna. Þið megið kalla mig klikkaða, en mér sýnist vera smá munstur hérna hjá mér. Ég grennist og fitna á víxl uns ekkert situr eftir nema sjálfstraust í mýflugumynd og brostin loforð.
Mitt vandamál er í raun einfalt. Ég hef takmarkaða trú á sjálfri mér. Þar kemur einkaþjálfarinn Ingó inn í myndina.
Breyttur hugsunarháttur á undan breyttu útliti
Í stað þess að hefja einkaþjálfunina á gloríu-fyrirlestri um paleó-makróbatískt-astanga-grænfrumungamatarræði lagði hann mér einfaldlega línurnar: Þessi einkaþjálfun verður vissulega í formi líkamlegra æfinga en aðaltilgangurinn er að þjálfa hugann.
Hvaða íþróttamaður getur sagt þér að lykillinn að árangri er hugurinn. Nánar tiltekið snýst þetta um hugsunarhátt.
Tökum mig sem dæmi. Ef ég æfi og æfi, og borða hollt en get ekki hætt að hugsa um hvað ég er mikill keppur þá kemst ég ekkert áfram, hugurinn er fastur í neikvæðri orku. Fyrr eða síðar nær þessi hugsunarháttur að draga mig niður og alla leið í snakkpokann. Game over.
Ingó kenndi mér að það allra mikilvægasta er að hugurinn sé á undan kroppinum. Það þýðir að áður en kroppurinn missir kílóinn þá þarf hugfarið að vera eins og takmarkinu sé nú þegar náð.
Ef þú hugsar eins og manneskja sem er í toppformi þá læturu eins og manneskja í toppformi.
,,Ég er í góðu formi…Ég er í góðu formi…”
Sökum þess hve Ingó var ákafur í sínum boðskap þorði ég ekki annað en hlýða. Það eina sem ég þurfti að gera var að hugsa og láta eins og ég væri nú þegar komin í gott form.
Á hverri æfingu, við hverja málítið, á kvöldin fyrir framan spegilinn hugsaði ég með mér: ,,Já skvís er bara með’etta!” (Ég viðurkenni að aulahrollur var viðvarandi ástand til að byrja með en fljótlega varð þetta einfaldlega að vana.)
Heimsmeistarahugsunarháttur
Nú eru liðnar nokkrar vikur og æfingarnar hjá Ingó ganga vel, kílóin mjatlast niður á við og fötin eru aðeins rýmri. Eðlilegast væri að skrifa það á hollt matarræði og alla hóptímana sem við Margrét pjattrófa stundum í Hreyfingu. Ég vil hinsvegar halda því fram að þessi árangur væri talsvert minni ef ég væri ekki með hugarfarið stillt á Anna Margrét – bezt í heimi!
Það sem er auðvitað svo gott við að vera í einkaþjálfun er að það er búið að ákveða hvað þú þarft að gera, hversu lengi þú átt að brenna, hversu þung lóðin skulu vera og svo framvegis. Það eina sem ég þarf að gera er að mæta og stilla hugann á Usain Bolt-hugafarið.
Með hugann að vopni
Í lokin læt ég fylgja með mynd af mér og Margréti í lok fyrstu æfingarinnar hjá Ingó fyrir nokkrum vikum. Þarna þurftum við að stoppa að æfa því báðar fundu fyrir svima og ógleði. Við gáfumst þó ekki upp og héldum ótrauða áfram í allskonar svita-ævintýri.
Ég hlakka til að segja betur frá einkaþjálfuninni minni hjá Ingó, æfingunum sem við erum að gera, öllum skemmtilegu hóptímunum í Hreyfingu, góðum og hollum uppskriftum og margt fleira. Endilega fylgist með!
Anna Margrét er fædd í Reykjavík árið 1987, en hefur alið manninn í Svíþjóð, Suður Ameríku og víðar.
Anna er krabbi, og þykja þeir hinir kátustu. Tíska, förðun, jafnrétti, skrif og ferðalög um Afríku eru nokkur af hennar áhugamálum.