Ég elska morgnana þegar ég þarf ekki að fara fram úr nema mig langi til. Ekki af því að ég er löt, heldur vegna þess að ég nýt friðsældarinnar.
Það er svo slakandi að geta verið kyrr, að þurfa ekki að fara neitt, eða gera neitt. Ég verð að játa að ég elska að enn sem komið er þá eigi ég ekki börn. Mér finnst bara svo gott að kúra. Mér finnst líka gott að tími minn sé minn – hann tilheyrir engum öðrum.
Ég er ekki með nein lán, fyrir utan námslán. Ég lifi hálfgerðu hirðingjalífi, tilbúin að taka mitt (litla) hafurtask og fara á vit næstu ævintýra.
Á svona morgnum er best þegar það er rigning eða snjókoma, finnst mér. Það er bara svo ótrúlega yndislegt að vita að ég er hér í hlýjunni og þarf ekki að fara út í kuldann og vonskuveðrið.
Ég get bara legið og hugsað.
Ég hugsa um hvað mig langar að verða þegar ég verð stór. Þrátt fyrir öll mín afrek þá finnst mér ég ennþá eiga val. Ég hef forðast það eftir bestu getu að boxa mig inni einhvers staðar. Ég er 29 ára að verða og ég á ekki íbúð. Einu húsgögnin sem ég á er eitt náttborð, skrifborð og koffort. Það er allt og sumt.
Ég er ekki með nein lán, fyrir utan námslán. Ég lifi hálfgerðu hirðingjalífi, tilbúin að taka mitt (litla) hafurtask og fara á vit næstu ævintýra.
Það er ekki komið að því ennþá samt. Eins og er finnst mér gott að vera hér. Eftir að hafa nýlega búið í Englandi og ferðast til Parísar og Belgíu þá er ekki enn kominn ferðahugur í mig. Ísland er ennþá góður staður til að vera á. Kuldinn er frísklegur, fjöllin með sína hvítu toppa eru svo ótrúlega falleg. Ég veit ekki hvað hefur komið yfir mig því ég var vön að bölva þessum fjöllum sem héldu í snjóinn lengst fram eftir vori en nú vil ég ekki að hann hverfi. Þessi snjóhvítu fjöll fylla mig af frið.
Mér finnst best að vera svona. Á svona andartökum þar sem ég skynja að allt utanaðkomandi áreiti skiptir ekki máli. Að ég þarf ekki að gera neitt. Að ég þarf ekki að vera neitt. Það eina sem ég þarfnast er ég nú þegar; ég er til. Ég anda. Ég er heilbrigð. Ég á fjölskyldu og vini. Ég er í góðri vinnu. Ég hef alla möguleika opna. Hvað getur verið betra en það?
Það er á þessum stundum sem ég upplifi það sem flestir gúrúar okkar heims hafa sagt í gegnum aldirnar. Að hamingjan er hér í augnablikinu. Að það eina sem við þurfum til þess að vera hamingjusöm eru ekki fleiri hlutir, fleiri gráður, eða meiri athygli. Að það eina sem við þurfum er að stoppa og taka eftir því sem er gott nú þegar.
Að vera hamingjusamur er að vera þakklátur fyrir það sem við höfum, einmitt á þessu augnabliki. Mikið er ég þakklát í þessu augnabliki, hér og nú.
Guðný Guðmunds fæddist árið 1986 og ólst upp á Vestfjörðum. Hún hefur aðallega verið búsett í Reykjavík en líka alið manninn í Barcelona, Finnlandi og Englandi. Í dag starfar hún sem texta- og hugmyndasmiður auk þess sem hún rekur Innblástur.is, upplýsingasíðu um nám, atvinnu og ferðalög fyrir ungt fólk. Guðný hefur þó mestan áhuga á andlegum málefnum og sjálfsrækt.