HEILSA: Ég veit afhverju við fitnum…

HEILSA: Ég veit afhverju við fitnum…

Eða.. ég veit a.m.k. hvað “Hvers vegna fitnum við?” bókin segir að sé ástæðan fyrir því að við fitnum.

Ástæðan fyrir því að við fitnum er að sykrur fita okkur. Sykrur er að finna í mörgum matvælum eins og hveiti, heilhveiti, hrísgrjónum, ávöxtum, kartöflum og grænmeti.

Ég varð mjög undrandi að lesa að ávextir stuðla að offitu, hvað þá grænmeti en ég ræddi við sérfræðing í þessum málum eftir að hafa lesið bókina sem tjáði mér að jú sykrur fita okkur, en allt væri þetta spurning um jafnvægi og er töluvert pláss fyrir sykrur í matarræði okkar áður en þær fara að bæta á okkur mikilli fitu.

Það kom margt fram í bókinni sem vakti áhuga minn, höfundur leggur fram rök fyrir því að það skiptir engu máli hvort við hreyfum okkur eða ekki til að halda okkur grönnum. Einnig fer hann inn á þann vinkil að megrunaraðferðir sem ganga út á að brenna fleiri hitaeiningum en við borðum virkar ekki þar sem við borðum af því að við erum að fitna, ekki að við fitnum út af því að borðum og ýmislegt fleira.

Lausnin sem Gary Taubes gefur okkur við offitu er að borða ekki sykrur (ávextir, pasta, brauð, sykur og önnur kolvetni) og borða ekki meira en 200g af grænmeti á dag, en á móti borða nóg af kjöti og fitu.

Þetta hljómar eflaust svolítið einkennilega svona miðað við hvað heilbrigðisgeirinn segir okkur og er það eflaust ástæðan fyrir því að bókin er umtöluð af þeim sem hafa lesið hana. Það hafa a.m.k. spunnist margar umræður í vinahópnum hjá mér þegar ég hef farið að ræða efnistök bókarinnar.

Ég mæli með að lesa þessa bók sér til endurmenntunar, það er ýmislegt sem hljómar rétt í bókinni þó að maður sé ekki endilega sammála. Hún er fræðileg, ég var reyndar næstum því búin að gefast upp, en þegar hún fór að útskýra afhverju við fitnum þá varð hún á mannamáli. En ég mæli kannski ekki endilega með henni ef þú ert að leita að lausn til að grenna þig (þó aðferðin sem hann leggur til í bókinni svínvirki örugglega), en fróðleg er hún og það er alltaf gaman að lesa skoðanir annarra á svona hlutum.

Einnig verður að taka til greina að samfélagið sem við búum í, bíður í raun ekki upp á að hætta alveg sykruáti og þar af leiðandi verður hver og einn að nota almenna skynsemi þegar kemur að matarvali.

Share on facebook
Deila á Facebook
Share on twitter
Deila á Twitter
Share on pinterest
Deila á Pinterest