Detox, detox, detox.. þetta orð hefur í mínum augum verið tengt við neikvæða erfiða og óskaplega leiðinlega „iðju“.
En svo rakst ég á bók sem greip mig, ég las fyrsta kaflann þar sem talað var um að vera ekki að gera allt of miklar kröfur og pína sig, það að vera í detoxi snýst ekki um að líða illa heldur vel!
Ég var mjög glöð að sjá að koffínfíkill eins og ég mætti alveg fá mér tvo bolla af kaffi á dag án þess að vera eyðileggja „kúrinn“.
Koffín hjálpar nefnilega æðunum að víkka og flytja blóðið hraðar og þegar við hættum koffínneyslu skyndilega getum við fengið mikinn hausverk og liðið illa. Einmitt það sem gerðist fyrir mig þegar ég reyndi síðast við detox!
Í bókinni góðu sem heitir einfaldlega Detox er okkur kennt að velja „afeitrandi“ og ónæmisstyrkjandi mat, ásamt því hvernig við hjálpum líkamanum að losa sig við eiturefni með réttri öndun, hreyfingu, líkamsskrúbbi og baði.
Í bókinni eru 14 mismunandi detox leiðir:
Upplyftingaplanið, mengunarplanið, koffínlausa planið, sykurlausa planið, streituvarnarplanið, þynnkubanaplanið, þynnkubótarplanið, reyklausa planið, orkuplanið, heilsuræktarplanið, megrunarplanið, fegrunarplanið, appelsínuhúðarplanið og langlífisplanið.
Ég valdi UPPLYFTINGARPLANIÐ, sem er sjö daga detox þar sem maður sleppir hveiti, sykri, mjólkurvörum og rauðu kjöti. Maður fylgir auðveldu matarplani og tekur fjölvitamin, probiotic og maríustakk. Svo er mikilvægt að þurrbursta húðina og fara í ilmolíubað daglega, ásamt því að hreyfa sig 30-60 mín. Maður ræður því hvaða hreyfingu maður velur en detoxara er þó kennd undirstaðan í jógateygjum. Ég valdi að taka á því annan daginn og gera jóga hinn.
Ég er núna búin að vera í þessu detoxi í 5 daga og finn ekki fyrir hungri, aukinni þreytu eða höfuðverk! Það er algjörlega nýtt fyrir mér miðað við fyrri detox-reynslu og ég hlakka bara til að halda þessu plani áfram og verðlauna mig svo með einni feitri bollu áður en haldið er áfram í næsta plan 😉
Vala vinnur hjá 66 Norður, er menntaður innkaupastjóri og faglegur ráðgjafi hönnuða í öllu sem snýr að viðskiptum og markaðssetningu. Hún er krabbi, fædd árið 1979 og montin mamma tveggja stráka. Býr í 101.