Svakaleg umræða hefur myndast á tískusíðum vegna vaxtarlags fyrirsætunnar Crystal Renn. Crystal byrjaði að sitja fyrir 14 ára og fór í framhaldi af því að glíma við átröskun. Hún æfði líkamsrækt af slíku kappi að hún eyddi allt að 8 tímum á dag í ræktinni.
Þegar hún reyndi að snúa við blaðinu fór hún í hinar öfgarnar og fór að borða of mikið, fór úr stærð 4 í 14. Þá varð hún þekkt sem plus-size fyrirsæta. “Plus-size” konur litu á hana sem sinn talsmann og gaman var að sjá hversu vinsæl hún var þrátt fyrir aukakílóin.
En nú er svo komið að Crystal hefur tekið upp heilbrigaðri lífstíl, hún borðar hollt og stundar jóga og er komin niður í stærð 8. Svo furðulegt sem það má virðast eru margir ekki ánægðir með þetta og finnst hún hafa svikið “málstaðinn”. Fólk er reitt og hún hefur mætt svo mikilli hörku fyrir að grennast aftur að hún hefur sent frá sér myndband til að svara fyrir ákvörðun sína um heilbrigðara líferni. Þar segir hún m.a.
“Til að halda mér í miklum holdum þyrfti ég að vera matarfíkill!
Hún útskýrir vel að með átröskun hafi hún reynt að uppfylla væntingar annarra til hennar og passa í ákveðið mót. Það sama gerist núna þegar fólk og fjölmiðlar vilja að hún haldi sér í yfirstærð meðan hvorugt er henni eðlilegt.
Þrýstingur samfélagsins á hvernig maður á að vera, í hvaða mót maður á að passa er svakalegur. Hvernig væri heimurinn ef við myndum einfaldlega leyfa fólki að vera það sjálft?
Ef þér líður vel í eigin skinni og ert heilbrigð á sál og líkama þá ertu í réttri stærð.
Sjálf þurfti ég að mæta fordómum þegar ég var fyrirsæta þó ég hafi aldrei glímt við átröskun. Það var alltaf verið að ýja að því að ég hlyti að vera með átröskun og fólki fannst það hafa rétt á að dæma mig og segja með hneysklistón ” Þú ert svo horuð!”
Ég byrjaði 14 ára og fitnaði svo lítillega um 18 ára aldur og passaði ekki lengur í 90-60-90 mótið, þá var bara tvennt í boði, að svelta mig um nokkur kíló eða éta mig upp í yfirstærð?
Ég valdi að gera hvorugt og hætti í bransanum eins og svo margar aðrar stelpur hafa þurft að gera þegar náttúran gefur þeim brjóst og mjaðmir.
Hér er myndbandið með Crystal, falleg hvort sem hún er feit eða mjó eða “passleg”.
[youtube]http://www.youtube.com/watch?v=hVYYLyyLY8U&feature=youtu.be[/youtube]
Vala vinnur hjá 66 Norður, er menntaður innkaupastjóri og faglegur ráðgjafi hönnuða í öllu sem snýr að viðskiptum og markaðssetningu. Hún er krabbi, fædd árið 1979 og montin mamma tveggja stráka. Býr í 101.