Það eru alveg ótrúlega margir í kringum mig að byrja í ræktinni, skrá sig á allskonar námskeið, prófa nýja hluti, rífa sig upp á afturfótunum í matarræðinu og setja sér langtímamarkmið.
Enginn segist ætla að “komast í kjólinn fyrir jólin”, heldur finn ég einhvernvegin fyrir öðrum áherslum núna þar sem fólk er frekar spennt og ánægt með að vera fara ræktina og lítur ekki á það sem kvöð heldur sem val og þar af leiðandi finnst mér vera miklu meiri jákvæðni í gangi heldur en gengur og gerist.
Ég er einmitt ein af þessum sem er að prófa nýja hluti í vetur og hef ég sett mér markmið fyrir sálina, í tölum og útlitslega en fyrst og fremst er ég að sækjast eftir góðu tilfinningunni sem fylgir því að hreyfa sig.
Fyrsti dagurinn í ræktinni er á morgun og er nettur kvíði til staðar en samt meiri spenningur. Ég er búin að vera fóta mig áfram í matarræðinu undanfarna daga þannig að það er margt spennandi að gerast hjá mér.
Það er eitt sem ég lærði um helgina og er það að sjá mig ná árangri. Loka augunum og sjá mig komast í form, hlaupa hratt, lyfta þungu, passa í fötin mín en ég er sannfærð um að það stuðlar að því að ég muni ná markmiðum mínum.
Ég lærði líka um helgina að það er mikilvægt að gera sér grein fyrir í hvaða aðstæðum ég á erfitt með að standast t.d. súkkulaðikökurnar, feita matinn, sykurinn og framvegis og fann ég það út að ég er alveg svakalega veik fyrir freistingum þegar ég er á ákveðnum stöðum eða með ákveðnu fólki.
Kringlan = Fá sér kaffi og súkkulaði ásamt því að fara á Kringlukránna og fá sér eitthvað gott í gogginn.
Bíó = Verð að fá mér popp og grænan ópal, gos og ís í hlénu.
Fara í bæinn með systur minni = Fá mér ís.
Fara til útlanda = Ég er nú bara ekki í lagi þar, þar sem ég pæli meira í því hvað ég ætla að borða í útlöndum en hvað ég ætla að gera!
Út að borða með stelpunum = Hvítvínsgla(ö)s.
Ég get haldið áfram endalaust!
Nú er ég að æfa mig að gera nýjar hefðir og nýjar tengingar og er markmiðið að finna fyrir vellíðan á öðrum sviðum en í gegnum mallann þegar ég hitti t.d systur mín, fer í bíó eða í Kringluna.
Hefur þú pælt í því hvað hrindur af stað “mig langar í eitthvað” tilfinningunni þinni ?
Sigrún Þöll Þorsteinsdóttir (f.15 feb 1975 – d. 8 apríl 2014) bloggaði á Pjatt.is í rúmlega tvö ár.
Sigrún Þöll starfaði sem tölvunarfræðingur, var dellukona, tækjasjúk og fagurkeri af lífi og sál. Að eigin sögn fannst Sigrúnu gaman að hlaupa, hjóla, drekka kaffi, huga að heilsunni, prjóna, lesa, taka ljósmyndir, rækta garðinn sinn og fleira og fleira. Blessuð sé hennar minning. Sigrún verður ógleymanleg þeim sem kynntust þessari dásamlegu konu.