Matur gerir svo mikið meira fyrir okkur en að seðja hungrið.
Með réttu mataræði er hægt að stuðla að góðri heilsu, geislandi húð, kynþokka, krafti og þrótti áratugum saman. Hvað er flottara en sexý sextug dama? Ekkert.
Eftirfarandi eru nokkur heilræði fengin úr tímaritinu Womens Health.
1. Andoxunarefni eru málið
Andoxunarefni eru æskuvakinn mikli í mataræðinu. Andoxunarefni gefa tómatnum rauða litinn, gera brokkolíið grænt og láta eggaldinið fá sinn djúpa, fjólubláa lit. Andoxunarefni gera líka mannfólkið fallegra, enda sjá þau m.a. til þess að æðarnar stíflist ekki af kólestróli og hrukkur leggist yfir hörundið.
Þær sem borða ríkulega af ávöxtum og grænmeti geta vitnað um ávinninginn sem hlýst af því, hvort sem er fyrir línurnar eða lundina.
Best er að miða við að fá sem flesta liti á diskinn; bláber, granatepli, brokkolí, epli, kiwi, appelsínur, eggaldin… leitaðu að litum.
2. Rétt fita er góð fita
Fita er annar mikilvægur þáttur í því að viðhalda æskuljóma í útliti. Fjölómettaðar fitusýrur eru málið.
Borðaðu lax, ólífuolíu, fræ og hnetur til að krækja þér í þessa hollu fitu sem er þekkt fyrir að minnka líkurnar á að þú þjáist af aldurstengdum sjúkdómum; hjartavandamálum, sykursýki… og jafnvel hefur Alsheimers verið tengt við skort á neyslu fjölómettaðrar fitu.
Ég mæli persónluega með því að borða mikinn lax, reyktan, bakaðann, grillaðann… lax er á mínum borðum að minnsta kosti vikulega og þá gjarna á spínatbeði. Omega 3 fitan í laxinum hefur frábær áhrif á húðina.
3. Drekktu rauðvín
Þær segja það stelpurnar á Womens Health að það sé gott að drekka glas af rauðvíni með mat, fjórum til fimm sinnum í viku. Góðar fréttir fyrir marga! Þær segja að rauðvínið dragi úr líkum á hjartaáfalli, sykursýki og fleiri lífshættulegum sjúkdómum enda þynni það blóðið á heilsusamlegan hátt. Áfengið, og þá sérstaklega Pinot Noir, hefur góð áhrif á æðakerfið enda fullt af flavínóðum sem koma úr hýðinu á vínberjunum. Bring it on!
4. Drekktu grænt te
Grænt te er æðislegt. Stútfullt af andoxunarefnunum góðu og að margra mati það besta sem þú getur látið í þig til að sporna við öldrunareinkennum líkamans.
Jafnvel þó að þú fáir þér aðeins einn bolla á dag ertu að lækka líkurnar á því að fá of háan blóðþrýsting um 46% -drekktu fleiri og líkurnar lækka í 65%. Best er að hafa uppi á lífrænu grænu tei en það ætti að vera auðsótt í einni af okkar góðu heilsubúðum.
5. Borðaðu minna
Vísindamenn við Harvard hafa komist að því að konur sem halda sér í sömu þyngd og þær vógu um átján ára aldur eru 66% ólíklegri til að fá hjartasjúkdóma, of háan blóðþrýsting, sykursýki 2 og gallsteina séu þær bornar saman við jafnöldrur sínar sem bæta á sig 5-10 kg inn í fullorðinsárin.
“Því miður verður alltaf erfiðara fyrir okkur að halda þyngdinni í skefjum eftir því sem árin færast yfir. Ef maður heldur alltaf áfram að hreyfa sig eins og borða jafn mikið, bætir maður samt sem áður einu til hálfu kílói á sig á ári,” segir prófessor Walter Willett, forstöðumaður næringarfræðideildar við Harvard School of Public Health. “Þrátt fyrir að maður leggi sig allann fram er ekki hægt að sporna við líkamsstarfseminni. Hormón sem viðheldur vöðvamassa minnkar eftir því sem við eldumst og þannig mun talan á vigtinni ávallt stíga ef við höldum okkur við sama skammt af mat og hreyfingu.”
Og þá er best að stilla átinu í hóf…
Settu minna á diskinn: Rannsóknir hafa sýnt fram á að rottur sem borða minni skammta en þær sem borða “hefðbundna” skammta lifa um 30% lengur.
Ef þú minnkar matarskammtana þína lækkarðu um leið líkurnar á offitu, hjartasjúkdómum, háum blóðþrýstingi og fleiri líkamlegum hömlum sem tengjast jafnframt aldrinum.
Að takmarka hitaeiningarnar (low-cal living) kemur einnig í veg fyrir jójó megrunarkúra sem verða oft til þess að húðin á þér teygist fram úr hófi – og það getur látið þig eldast um nokkur ár í útliti.
Auðvitað er samt ekki verið að tala hér um skort eða svelti, borðaðu það sem þig langar í en haltu því bara í hófi!
Ég er af X-kynslóð, elska 70’s tónlist, finnst gott að fara í sund á kvöldin og á erfitt með arfa i görðum. Kýs fjölbreyti í lífið. Kann eina Eminem plötu utanað. Hef thing fyrir Marilyn Monroe, áhuga á feminisma og svona sitthvað fleira.