Hann er átrúnaðargoð og fyrirmynd ótal miðaldra karla sem vildu kátir hans vísur kveðið hafa og nú skulum við vona að frumkvæði Bills Clinton í heilsueflingu komi til með að smita út frá sér því forsetinn fyrrverandi er 100% grænmetisæta, eða ‘vegan’ eins og það kallast á fagmálinu.
Eftir að hafa árum saman glímt við veikindi tengdu hjartanu með þeim afleiðingum að hann fékk hjartaáfall ákvað Bill að venda sínu kvæði í kross og byrja alfarið að nærast á grænmetisfæðu. Þetta þýðir að hann borðar engar mjólkurvörur, egg, ekkert kjöt og engan fisk.
Bill Clinton át síðast kjöt á þakkargjörðarhátíðinni árið 2010 en síðan hefur hann ekki snert á því.
Clinton glímdi lengi vel við aukakílóin en eftir að hann breytti um lífsstíl hefur það ekki verið vandamál hjá honum lengur.
Samkvæmt ótal rannsóknum hefur það heilsubætandi áhrif að sleppa dýraafurðum úr mataræðinu og nærast á því sem kemur úr jurtaríkinu í staðinn. Fyrir ófáum árum voru það einungis fáir sérvitringar og jóga iðkendur sem kusu slíkt mataræði í daglegu lífi en eftir að ótal Hollywood stjörnur byrjuðu að tileinka sér ‘veganisma’ varð útbreiðslan hraðari og daglega fjölgar þeim sem hætta að borða kjöt og aðrar afurðir af dýrum.
Rannsóknir hafa meðal annars leitt í ljós að það er auðveldara að stjórna þyngdinni ef þú nærist aðeins á afurðum jurtaríkisins, einnig hefur komið í ljós að fólk sem er með sykursýki hefur betri stjórn á glúkósa og kólestról í mataræðinu snarminnkar.
Þá er ástæða til að trúa að vegan-mataræði geti komið í veg fyrir sjúkdóma á borð við krabbamein, offitu, hjartasjúkdóma og sykursýki.
Læknirinn sem ráðlagði Clinton að hætta að borða kjöt og aðrar dýraafurðir sagði í viðtali við Huffington Post að ekki þarf nema einn mánuð á slíku mataræði til að sjá jákvæðar breytingar en blóðflæði til hjartans verður á þessum tíma mun betra. Rannsóknir hafa meira að segja leitt í ljós að þetta mataræði getur hreinlega haft jákvæð áhrif á erfðamengi þeirra sem erfðalega séð eru í mikilli hættu að fá t.d. krabbamein eða hjartasjúkdóma.
Áhugi Clintons á breyttu mataræði og heilsu hefur svo haft góð áhrif en góðgjörðarsjóður hans, The Clinton Foundation, hefur nú í samstarfi við Bandarísku Hjartasamtökin (the American Heart Association) lagt sitt af mörkum til að breyta matar og hreyfingaráætlun í um 12.000 skólum í Bandaríkjunum.
Fjölbreytileiki og góður fílíngur er mottó Pjattsins. Engar smellabeitur, bara endalaust af góðu efni, blogg, pistlar, uppskriftir, heilræði, heilsutips, menning, bækur, andlega hliðin og allskonar, allskonar enda höfum við verið í loftinu síðan 2009.