Það að gleyma sér í daglegu amstri er eðlilegasti hlutur í heimi – það kemur fyrir okkur öll. En þó má alltaf temja sér góða siði.
Til þess að öðlast betri líkamlega og andlega heilsu er gott að hafa eftirfarandi atriði í huga:
1. Grænt te sem morgundrykkur
Græna teið er ríkt af andoxunarefnum og koffeini, styrkir ónæmiskerfið og er margfalt hollara en kaffibollinn! Vertu tilbúin með hraðsuðuketilinn að morgni og finndu muninn.
2. Stundaðu reglulega og skynsamlega hreyfingu sem hentar þér
Þörf á hreyfingu er persónubundin. Á meðan sumir hreyfa sig ákaft sex sinnum í viku getur það hentað sumum betur að notast við hreyfingu eins og létt skokk í lengri tíma, göngutúra, léttar lyftingar og brennslutæki. Of lítil hreyfing er ekki af hinu góða en of mikil og áköf hreyfing oft í viku getur hægt á ónæmiskerfinu. Best er að hlusta á líkamann.
3. Hnetur og ávextir í millimáltíðir
Hnetur eru ríkar af orku, prótínum og hollri fitu á meðan ávextir innihalda góðan sykur, vítamín og andoxunarefni. Mun hollara en súkkulaðistykki eða kex og veitir manni betri langtímaorku.
4. Hittu vinina/vinkonurnar oftar
Kannanir hafa sýnt að þeir sem stunda meira félagslíf (þó það sé ekki nema hitta vinkonu í hálftíma í kaffi) eru hamingjusamari, við betri andlega/líkamlega heilsu og lifa lengur. Gefðu þér því tíma í vini og félagsskap, allavega nokkrum sinnum í mánuði.
Aldrei er góð vísa of oft kveðin. Prófaðu að fara eftir þessum einföldu ráðleggingum daglega og finndu andlegan og líkamlegan mun.
Gunnhildur Birna Gunnarsdóttir er förðunarfræðingur og útskrifaðist með hæstu einkunn úr MOOD Make Up School með áherslu á tísku- sjónvarps- og ljósmyndaförðun og tók Airbrush námskeið í sama skóla. Hún er sjálfstætt starfandi og tekur að sér hin ýmsu verkefni, allt frá einstaklings- og brúðarförðunum upp í tímarit og auglýsingar. Einnig vinnur hún fyrir Bobbi Brown á Íslandi sem sölustjóri.
— Vantar þig förðun og/eða persónulega förðunarráðgjöf? Hafðu samband á gunnhildur@gb-makeup.com