Nú er nýtt ár gengið í garð. Árið 2013 hljómar ansi vel… Margir setja sér áramótaheit að bættri heilsu og nýjum lífsstíl -sem er frábært.
Ég “kíkti” einn seinnipartinn á dögunum í ræktina, sem er kannski ekki frétt vikunnar, nema fyrir það að mér leið eins og sardínu í mjög svo þröngri dós sem hefur verið staflað vegna plássleysis.
Horfði í kringum mig og svitnaði, ekki af álagi þó, heldur af næstu sardínu mér við hlið. Þar sem þessar elskur lykta fremur illa, getið þið rétt ímyndað ykkur hvernig fnykurinn lá yfir öllu.
Þá fór ég að spá í hvað margir sem hömuðust hér og þar um salinn og svitinn skvettist í allar áttir, væru þarna af hjartans skynsemi.
Auðvitað er það hið besta mál að koma sér í ræktina en það skiptir mestu á hvað hraða við förum.
Hvernig væri að setja sér áramótaheit í skynsemi ?
Mér finnst það hljóma nokkuð vel, að byrja smám saman og auka jafnt og þétt. Auka vatnsdrykkju – og fara svo í mataræðið, byrja á því auðvelda og sjá hvort ekki er hægt að ná tökum þar áður en lengra er haldið.
Nokkrar tillögur að breyttu mataræði:
- Fyrst er að nefna að oftast er hægt að minnka sykurinn allt að helming án þess að það komi að sök. Kökurnar verða áfram dísætar. Svo er um að gera að nota sætuefni eins og Agave sýróp eða aðra sætu, í stað hvíta sykursins.
- Skipta má út hvítu hveiti og nota í staðinn spelt eða heilhveiti. Þeir sem eru með glúteinóþol geta svo prófað sig áfram með hrísmjöl, maísmjöl og bókhveiti.
- Svo má skipta út smjörinu (og sérstaklega smjörlíkinu) út fyrir góðar kaldpressaðar olíur. Til að minnka fituna má einnig nota til helminga ávaxtamauk, svo sem epla- eða berjamauk.
- Oft má einnig draga úr saltmagni í uppskriftum og þá stundum hægt að nota jurtakrydd í staðinn, eða önnur krydd.
Skynsöm hreyfing
Þegar að kemur að hreyfingunni sjálfri er gott að taka tillit til ástandsins á líkamanum hverju sinni. Mestu mistök sem við gerum eru út af óþolinmæði, þegar farið er of hratt af stað.
Við viljum sýnilegan árangur helst í gær eða fyrradag. Það eina sem við fáum út úr því eru vonbrigði, aumur skrokkur og það verður meiri hætta á uppgjöf. Svona getur þetta gengið ítrekað aftur og aftur ef skynsemi og þolinmæði eru ekki með í för.
Nokkrar tillögur að hreyfingu
- Að ráða sér þjálfara er bæði skynsöm og góð lausn. Miklu minni líkur að uppgjöf verði fljótlega.
- Ef t.d. ökklar, hné eða mjaðmir eru ekki í lagi getur verið gott að synda eða hjóla, meðan þú ert að byrja.
- Byrjaðu rólega og settu þér raunhæf og ekki of flókin markmið sem þú veist að þú getir náð, t.d. fara út að ganga þrisvar í viku, 20 mínútur í senn.
Ekki gefast upp þó svo að þú missir einhverja daga úr, öll skynsamleg hreyfing er betri en engin hreyfing. Það er gott að festa niður á blað fasta daga og tíma til æfinga.
Þannig verður þjálfunin eðlilegur hluti af viðkomandi dögum.
Ef þér finnst ekki þeim mun betra að vera ein með sjálfri þér reyndu þá að draga einhverja skemmtilega og jákvæða með þér, veitir þér aðhald og eykur á ánægjuna. Hlustaðu á líkamann og legðu áherslu á að njóta hreyfingarinnar.
Hreyfing og heilbrigt mataræði er lífsins nauðsyn en þó af allri skynsemi. Öfgarnar fleyta okkur ekkert sérstaklega langt. Við gefumst bara upp fyrr.
Munið að njóta hvers einasta skrefs sem þið takið, þó að þau séu lítil að ykkar mati eru þau alltaf betri en ekkert.
Guðný H. Sigmundsdóttir er hársnyrtir að mennt og með gífurlegan áhuga á flestu sem eykur á heilbrigði og vellíðan. Hún elskar að baka og útbúa hollan mat, hefur brennandi áhuga á leiklist og hefur stundað hana í tvö ár ásamt því að starfa sem sölu og markaðsmanneskja.