Það er fátt jafn dásamlegt og gott dekur en í baðstofu Lauga í World Class er ein flottasta baðstofa landsins.
Ég hafði heyrt nokkuð mikið og gott um staðinn þegar vinkona mín bauð mér þarna um daginn. Ég varð sannarlega fyrir vonbrigðum!
Ekki með staðinn, alls ekki misskilja mig! Heldur með sjálfa mig að hafa ekki komið þangað inn fyrr! Staðurinn er algjör paradís á jörð og ég er að hugsa um að flytja þangað. Láta flytja kennitöluna!!
Staðurinn minnir á helli þar sem andrúmsloftið er rólegt og unaðslegt. Einungis heyrist í vatni sem rennur eftir steinalögðum vegg. Ljósin er dempuð svo þú upplifir þig í öðrum heimi.
Þegar inn kemur geturðu valið milli sex ólíkra gufuklefa, bæði blautgufum og þurrgufum þar sem ólík þema eru í gangi. Stór og góður nuddpottur er á svæðinu með jarðsjó sem sér til þess að þú slakir á.
Fótaböðin eru einstök en þar má einnig finna jarðsjó bæði heitan og kaldan. Tilvalið er að fara í bæði heit og köld fótaböð á víxl til að ná algjörri ró.
Svo má ekki gleyma hvíldarherberginu. Þar inni eru stórir og rúmgóðir stólar sem eru með þeim allra mýkstu sem ég hef prufað. Í miðju hvíldarherberginu er stór arinn og ljúfir tónar berast úr hátölurum. Listaverk af náttúru Íslands og kínverskt granít príða veggina og veita því einstaka fegurð.
Hvíldarherbergið er staður þar sem auðvelt er að láta hugann reika og slökkva á öllum stöðvum líkamans og slaka algjörlega á, jafnvel taka smá kríu.
Í einum gufuklefanna má heyra fuglatíst og skógarhljóð og er sá gufuklefi í algjöru uppáhaldi hjá mér. Þar get ég legið á handklæði og gleymt stað og stund. Þú manst varla hvað þú heitir þegar þú ert stödd í þessum dásemdarklefa og streita dagsins/vikunnar hreinlega lekur af manni.
Ég ímynda mér alltaf að ég sé stödd á eyðieyju einungis umkringd trjám, fossi og fallegum fuglum sem syngja allan daginn litla sæta tóna. Það er fátt betra en að ná þessari slökun í amstri dagsins, gleyma stund og stað og vera aðeins til í núinu.
Aðrir gufuklefar skarta stjörnuhimni, sólaruppkomu og mismunandi ilmum eins og lavender, piparmintu og sítrónuilm.
Ef maður gefur sér góðan tíma til að dekra við sjálfan sig er tilvalið að prófa alla eða nokkra gufuklefa og finna hvaða gufuklefi hentar manni best.
Auðvitað er hægt að fá að borða í þessari flottu heilsulind, en hægt er að panta bæði mat og drykki í veitingarsalnum.
Mín hugmynd af fullkomnum degi er að skella sér á góða æfingu, fara svo í dásamlegt dekur á baðstofunni og léttan hádegismat í veitingasalnum á eftir.
Þessi dekurdagur er yndislegur hvort sem þú ferð ein/einn eða með vini/vinum. Auðvitað er líka tilvalið að fara með saumaklúbbnum eða ef það er verið að gæsa/steggja eða taka einn dásemdar dekurdag með ástinni þinni. Þú verður ekki fyrir vonbrigðum. Láttu þér líða vel!
Baðstofa Lauga er nú minn uppáhalds hvíldarstaður þar sem ég næ að slaka fullkomlega á. Hrein paradís á jörðu!
Guðrún J. Halldórsdóttir er innanhúss- og húsgagnahönnuður. Sporðdreki og Tígur takk.