Nú er mánuður liðinn af átaki okkar Díönu og hvað er búið að gerast?
Við erum semsagt tvisvar í viku hjá snilldar einkaþjálfara sem heitir Hrafnhildur Halldórsdóttir og hefur kennt okkur gríðarlega margt. Líkamsrækt hjá henni er skemmtun, stundum erfið og krefjandi en engu að síður hlakkar okkur alltaf til að mæta og taka á því.
Fyrir utan einkaþjálfun höfum við verið að fara tvo til þrjá aðra tíma í Hreyfingu í viku. Erum svakalega ánægðar með Toppform tímana hjá Guðbjörgu, Bodybalance og Hot Yoga.
Ég hef stundað jóga um árabil og finnst nauðsynlegt að gera það áfram með hinni ræktinni til að koma á jafnvægi í líkamanum og styrkja hann og teygja.
Ég er mjög ánægð með árangurinn sem ég hef náð á mánuði. Mér líður svo vel og er full af orku en það er bara þjálfun og breyttu mataræði að þakka. Og fyrir fyrrum letibykkju og sælgætisgrís þá finnst mér merkilegt hvað það var auðvelt að hætta að borða nammi, snakk og drekka gos svo ekki sé minnst á pizzu, pasta og rjómasósur. Þetta var bara nokkurra daga erfiði en nú langar mig ekkert í þessa hluti. Ég er í alvöru ánægðari með ávexti, grænmeti, hollan mat, skyrboozt og léttar sósur.
Markmiðið mitt er vel á veg komið. Ég er búin að missa 4% fitu (5-8% er þriggja mánaða markmið) og minnka ummál allstaðar um marga sentimetra: Lærin á mér eru “horfin”, leggirnir vel tónaðir, rassinn hefur minnkað og lyfst upp og handleggirnir eru grannir og tónaðir.
Það er erfiðast fyrir mig að losna við “barnabumbuna”. Hún hefur minnkað töluvert en ekki eins mikið og ég hefði viljað svo nú er næsta skref að sleppa hveiti og sykri algjörlega, eins er smjör og rjómi auðvitað á bannlista.
Verð víst að fara eftir eigin ráðum: Burt með bumbuna
Í lokin verð ég að koma því að til mæðra í sömu stöðu og að litlu strákunum okkar finnst jafn gaman og okkur að fara í ræktina, þeir eru svo glaðir og ánægðir í Leiklandi og það er ómetanleg hvatning að vita af þeim í góðum höndum á meðan við æfum.
Vala vinnur hjá 66 Norður, er menntaður innkaupastjóri og faglegur ráðgjafi hönnuða í öllu sem snýr að viðskiptum og markaðssetningu. Hún er krabbi, fædd árið 1979 og montin mamma tveggja stráka. Býr í 101.