Það er komið nýtt ár og ég mætti, enn einusinni, inn í nýtt ár fersk með stútfullann sekk af allskonar áramótaheitum, með lof um bót og betrun.
Áramótaheit númer eitt hjá mér síðustu svona sirka skrilljón ár er að taka mig á í ræktinni.
Ég er öll af vilja gerð og hef alltaf tröllatrú á að núna sé komið að því, þetta er árið sem lóðunum verði refsað.
Ég er mjög skipulögð týpa og byrja alltaf á beisikk undirbúningi. Kaupa mér íþróttaföt. Ég á líklega tuttugu íþróttabuxur, sem ég kalla reyndar kósýbuxur í dag, þar sem fæstar þeirra hafa nokkurntíman séð hvað á sér stað innann veggja líkamsræktarstöðva. Auk þess hef ég nokkrum sinnum fjárfest í rándýrum íþróttaskóm. Þeir hafa heldur ekki mætt í ræktina. Á það reyndar til að fara út að labba í þeim. Gott að eiga tíu pör af skóm til skiptana þegar að maður fer út að labba ekki satt?
Einu sinni, í líkamsræktarundirbúningi, keypti ég risa dunka af allskonar fæðubótaefnum fyrir tugi þúsunda. Blandaði mér einu sinni einhvern svona duft drykk. Nokkrum árum síðan hennti ég þessu, löngu runnið út. Ég held að ég hafi mætt tvisvar í ræktina það árið.
Í gegnum tíðina hef ég haft allar afsakanir í heiminum af hverju ég sé ekki byrjuð í ræktinni. Er komin með doktorsgráðu í afsökunum. Sú afsökun sem hefur trónað á toppnum er að ég bara má ekkert vera að því, svo agalega mikið að gera hjá mér. Ég hef samt tíma til að kíkja á ofurtímaþjófinn Facebook, svo hef ég líka tíma til að fylgjast með þessum týpísku sjónvarpsseríum, auðvitað bý ég til tíma til að kíkja á vini mína, svo hef ég líka stöku sinnum tíma til að taka powertrúnó símtöl við vinkonurnar, jú ég hef líka alveg stöku sinnum tíma til að kíkja í búðir og gleðja augað en ég hef bara alls ekki tíma til að fara í ræktina. Ég veit að við erum öll með jafn marga klukkutíma í sólarhringnum, en ég er bara svo agalega upptekin.
Svo hef ég oftar en ekki bara eiginlega ekki haft efni á því. En ég hef svosum haft efni á því að skottast stöku sinnum í bíó og á kaffihús, já leyfði mér að kaupa mér einhverjar spjarir við og við, já ég átti það til að pannta pizzu, en ég hafði bara engan vegin efni á því að fara í ræktina.
En í ár er viðhorfið hjá mér breytt og ég er hætt að koma með allskonar afsakanir. Útskýringin á því af hverju ég mæti ekki í ræktina er alls ekki flókin. Mér finnst bara svo drepleiðinlegt að lyfta lóðum og hlaupa á bretti. Já og ég skammast mín ekkert fyrir það. En það er ekki þar með sagt að mér finnist leiðinlegt að hreyfa mig. Alls ekki.
Í ár ætla ég bara að stunda hreyfingu sem mér finnst skemmtileg og er laus við alla kvöð. Það er dásamlegt að fara út að labba. Gönguferðirnar mínar innihalda fullt af fersku súrefni og hugleiðslu. Gott fyrir líkama og sál. Svo á ég það til að hækka tónlistina í botn heima við og dansa eins og andsetinn indjáni. Þetta er reyndar hernaðarleyndamál og ég óttast það að verða staðin að verki einhvern daginn, en við þetta stútfyllist ég af gleðigenum.
Og svo finnst mér ofboðslega gott að fá mér sundsprett, já ég syndi, en vissulega verðlauna ég mig með því að kíkja pínu í pottinn. Ég er reyndar ekki alveg búin að gefast upp á líkamsræktarstöðvunum. Hef bara ekki hugsað mér að snerta lóðin, en aftur á móti ætla ég að prufa Zumba og Hot yoga. Það hljómar svo skemmtilega.
Markmið mitt í lífinu er nefnilega ekki að standa hálf berrössuð uppá sviði og hnykla vöðva, þetta snýst um aukin lífsgæði.
Guðrún Hulda er flugfreyja sem hefur stundað nám við félagsfræði og félagsráðgjöf við Háskóla Íslands. Hún er fagurkeri og nautnaseggur sem hefur gaman af öllu því sem gleður augað, eyrað, kroppinn, andann og sálina. Guðrún er vog.