Það gleður mig ótrúlega hvað fólk er að verða meðvitað um mataræði, hreyfingu og allt sem viðkemur heilsunni. Maður opnar ekki blöðin án þess að sjá hinar ýmsu auglýsingar og upplýsingar um mikilvægi heilsunnar.
Ofurfæða eða “superfood” er einfaldlega matur sem inniheldur hlutfallslega mikið af næringarefnum, andoxunarefnum og góðum plöntuefnum.
Bara orðið sjálft, ofurfæða, heillar en áhrif ofurfæðunnar er hreint út sagt ótrúleg. Nú hafa engar tipp topp vísindalega rannsóknir verið gerðar á þessu en þó má telja ljóst að ofurfæða eflir heilsu og er talin geta komið í veg fyrir hina ýmsu sjúkdóma. Og þar sem líkami og sál haldast ávallt í hendur þá getur sum ofurfæða komið þér í ofurskap.
Í öllum heimsálfum hafa heimamenn oft langa reynslu af þessum matvælum og hefur fæðan löngu öðlast sinn sess eins og lýsið, fjallagrösin og fleira hjá okkur.
Mikið af ofurfæðunni er eitthvað sem að við erum nú þegar með í ískápnum því hún er ekki öll okkur framandi. Úrvalið er að aukast svo um munar í stórverslununum svo það er alltaf að auðvelt að nálgast vörurnar.
Solla Eiríks er sannkölluð fyrirmynd okkar íslendinga í þessum efnum og þökk sé henni er mikið auðveldara fyrir hvern sem er að nálgast þessa ofurfæðu.
Það er til fullt af fæðutegundum sem við þekkjum og borðum dags daglega sem eru flokkaðar sem ofurfæða, t.d: alfalfa spírur, avókdó, baunir, brokkolí, engiferrót, graskersfræ, grænt te, heilir hafrar, hörfræolía, krækiber, möndlur, rauðrófa, sellerí, sesamfræ, spínat, steinselja og tómatar.
Færri þekkja aftur á móti camu camu, durian, fjólublátt maísduft, lucumaduft og maca en síðari nefndu duftin eru sæt og henta því frábærlega í sjeika og bakstur.
Ég ætla að telja upp nokkrar ofurfæður úr nokkrum fæðuflokkum sem að ég er hvað hrifnust af. Listinn er frekar langur svo að ég hvet fólk til að kynna sér þetta, og ekki bara þetta heldur hvað mataræði skiptir miklu máli fyrir heilsu og hamingju !
BER OG FRÆ
Bláber – Eru líklega mest rannsakaða ofurfæðan. Þau eru einstaklega rík af andoxunarefnum, þráavarnarefnum, c-vítamíni, magnesíum og trefjum sem sögð eru nauðsynleg heilsu okkar. Einnig er talið að þau eigi að hægja á öldrun. Rannsóknir hafa einnig sýnt að villtur bláberja djús eigi að styrkja heilann, bæta minnið og á víst að auðvelda eldra fólki að læra og draga úr þunglyndi.
Goji-ber – Ég elska goji ber ! Þau líta út eins og litlar eldrauðar rúsínur og líkt og rúsínunar er hægt að nota þau út í nánast hvað sem er. Goji-berin eru upprunanlega frá Asíu og hafa verið notuð þar í þúsundir ára. Í kínverskum lækningum voru þau notuð í langlífiselixír og notuð til að auka orku og einbeitingu. Þau eru rík af andoxunarefnum og ýmsum plöntuefnum.
Krækiber – Ef þú varst að bölva því að finna engin bláber heldur bara krækiber í lok sumars þá skaltu endurskoða það aðeins því krækiberin okkar góðu eru ofurfæða ! Ég viðurkenni að ég var enginn brjálaður aðdáandi en allt í einu finnst mér þau bara ótrúlega góð, sérstaklega frosin. Krækiberin eru C og E vítamínrík, járnrík, innihalda mikið af andoxubarefnum líkt og bláberin. Krækiberin eru vökvalosandi, talin styrkja sjón, hafa jákvæð áhrif á blóðþrýsting og styrkja slímhúðir líkamans. Einnig hafa þau verið notuð til að stemma við of miklum tíðablæðingum hjá konum ! Sannkölluð ofurber !
Hampfræ – Þessi snilldar fræ eru tiltölulega ný á íslandi en eru talin eiga uppruna sinn í Asíu. Þau hafa mjög góðan og ekki mjög bragðsterkan hnetukeim. Þau eru rík af fjölómettuðum omega-3- og -6-fitusýrum og próteinum. Próteinin í hampfræjum innihalda allar lífsnauðsynlegu aminósýrunar og teljast því góð plöntuprótein. Ég set t.d. hampfræ útí prótein pönnukökunar mínar og svo er snilld að strá þeim yfir salat. Hampolían er líka einhvað sem fólk með exem ætti að kynna sér, olían að frábær í inntöku sem og á húðina.
Chia-fræ – Þessi fræ eru orðin ansi vinsæl hér á landi enda rík ástæða til þess, þessi litlu en mögnuðu fræ eru stundum kölluð ofurfæða 21. aldarinnar. Saga chia fræsins nær allt aftur til 3500 F.K. og eru þau talin hafa verið mikilvægur hluti af fæðu Maya og Azteca. Chia fræin er mjög próteinrík og innihalda allt að 30 gr af próteini í hverjum 100 gr sem er meira en er að finna í kjúklingabringu. Chia fræin eru einnig mjög rík af lífsnauðsynlegum omega 3 og omega 6 fitusýrum. Þau eru ríkasta uppspretta omega 3 sem völ er á í jurtaríkinu og myndu því teljast sérlega góð fyrir einstaklinga með bólgusjúkdóma, þar sem omega 3 myndar bólgueyðandi efni í líkamanum. Vert að hafa í huga að grunnurinn að hverri einustu frumu í líkama okkar eru fitusýrur. Ég gæti fjallað mun meira um þessi töfrafræ en ef þú átt þau ekki nú þegar til inní skáp hjá þér þá þarftu að snattast útí búð eins og skot.
GRÆN OFURFÆÐA
Grænkál – Grænkál mjög járnríkt og er járn okkur mjög mikilvægt til að halda heilsu og tekur það þátt í myndun blóðrauða (hemoglobins) og ensíma sem sjá um að flytja súrefni um líkamann. Járnið er einnig mikilvægt fyrir allar frumur líkamans og margt fleira. Það hefur einnig bólgueyðandi eiginleika, inniheldur miki af k-vítamínum og meira kalsíum heldur en t.d. mjólk. Ég gæti talið upp margt, margt fleira svo gott og hollt er grænkálið, það er t.d. stútfullt af öflugum næringarefnum sem eiga að hjálpa líkamanum að verjast krabbameini. Grænkálssnakk er t.d. sjúklega sniðugt nesti eða til að narta í heima fyrir. Uppskrift var birt á pjattinu um daginn, sjá hér.
Brokkolí – Brokkolí á t.d. að hjálpa fólki að grennast. Rannsóknir sýna að lífvirka efnið í brokkolí, sulforaphane hindrar hrörnun fruma og stuðlar að endurnýjun þeirra, bæði í heilanum og líkamanum. Sulforaphane virkar eins og kveikiþráður á eigið varnarkerfi líkamans, t.d. örvar eigin andoxundarvarnir líkamans sem er margfalt áhrifaríkara en einstaka andoxunarefni sem við fáum í gegnum mat. Hjálpar líkamanum að losa út eiturefni og hefur bólgueyðandi eiginleika.
Avacado –Er sérlega ríkt af góðum próteinum og fitusýrum, einnig lipasa sem er ensým sem brýtur niður fitur. Lipasi er mikilvægur fyrir meltinguna, sérstaklega meltinguna á fitum. Avacado er í raun mjög gott fyrir þá sem vilja losna við auka fitu úr líkamanum því lipasi brýtur niður og meltir fituna. Ásamt því að innihalda fullt af öðrum góðum næringarefnum.
Spínat – Allt grænmeti sem er dökkgrænt eins og spínat er mjög gott fyrir hárið, húðina og beinin. Spínat er stútfullt af próteini, steinefnum, vítamínum og járni. Það sem gerir spínat að svona mikilli snilld er að það getur stjórnar glúkósa í blóðinu hjá þeim sem eru með sykursýki og það lækkar einnig líkurnar á krabbameini. Hefur meira að segja áhrif a astma og margt fleira. Stjáni Blái vissi sko alveg hvað hann var að tala um !
FISKUR
Lax – Lax er mjög ríkur af omega 3 fitusýrum sem eru góðar gegn bólgum og eins og ég sagði áður þá er undirstaða allra frumna líkamans fitusýrur. Hann er sagður góður gegn kvíða og þunglyndi enda ríkur af D vítamínum.
Einnig er hann talin fyrirbyggja krabbamein, breinsjúkdóma, hjartasjúkdóma og s.frv.
Maður má svo sannarlega vera duglegri við að borða lax. Mælt er með að borða frekar villtan lax heldur en ræktaða því hann er næringarríkari og laus við slæm aukaefni.
SÚKKULAÐI – FÆÐA GUÐANNA
Maya-Indíánar og Astekar notuðu kakóbaunir sem gjaldmiðil í stað peninga, svo dýrmætar þóttu þær, enda kallaðar fæða guðanna. Baunirnar eru stein- og snefilefnaríkar.
Kakónibbur – Ég elska þessi ofurkrútt ! Kakóbaunamolar sem hægt er að nota sem súkkulaðibita eða -spæni. Nibbunar eru ósætar og gefa gott og beiskt kakóbragð, passar því vel með sætindum.
Það er líka hægt að mala þær niður í duft með kryddkvörn því þær eru harðar undir tönn og sumum finnst það óþæginlegt. Ég nota þær t.d. útá chia-hafra-möndumjólkur grautinn minn á morgnanna.
Hrátt kakóduft – Er gert úr möluðum kakóbaunum þegar búið er að skilja kakósmjörið frá. Hægt er að velja hvort við viljum nota kakóduft úr hráum eða hitameðhöndluðum kakóbaunum.
Hrátt kakó á að styðja og styrkja hjartað og hefur jákvæð áhrif á blóðþrýstinginn.
OFUR BÝFLUGUR!
Hinn vestræni heimur uppgötvaði kosti býflugna afurða fyrir tilviljun, eða þegar það var verið að rannsaka innfædda rússa sem höfðu unnið alla sína ævi við að rækta býflugur. Flestir urðu nefninlega svo mikið sem 100 ára gamlir og var tengingin við þennan háa aldur gerð vegna þess hve mikið af hráu hunangi og fleiri býflugnaafurðum þeir neyttu.
Hrátt hunang – Til eru margar tegundir af hunangi en hrátt hunang er oft bragðmikið og passar vel með ávöxtum, grísku jógúrti og krydduðum sætindum.
Gott hunang getur haft ýmis jákvæð áhrif; inniheldur andoxunarefni, styrkir ónæmiskerfið og hefur bakteríudrepandi eiginleika.
Blómafræflar (Bee pollen) – Hunangsflugur pakka frjókornum og hunangi í litla bolta sem þær geyma svo í býflugnabúinu. Þessir litlu boltar kallast blómafræflar eða bee pollen og eru aðal prótein gjafi þeirra. Þeir eru taldir auka orku og úthald. Þeir eru einnig sagðir auka frjósemi en betra er að forðast þá á meðgöngu til öryggis þar til betri rannsóknir hafa verið gerðar. Best er að prófa sig áfram varlega því í einstaka tilvikum hafa komið fram ofnæmisviðbrögð hjá fólki með frjókornaofnæmi. Blómafræflanir gefa sætt bragð í eftirrétti en próteinin gefa góða fyllingu.
OLÍUR
Hörfræolía –Hörfræolían er rík af omega-3 fitusýrum (um 60%). Í olíunni finnast einnig omega-6 (um 13%) og omega-9 (um 17%) fitusýrur, ásamt vítamínum og steinefnum.
Nauðsynlegt er að jafnvægi ríki í neyslu á omega fitusýrum þar sem of mikið af omega-6 hindrar upptöku á omega-3 og getur þannig valdið skorti. Omega-6 er að finna í mjög mikið af matvörum svo gott er að taka inn lýsi og hörfræolíu á morgnanna.
Hægt að lesa meira um hörfræolíu og hveitikím hér en hveitikím virkar t.d. eins og krem sem maður ber inná við.
Kókosolía – Ég hugsa að ég noti kókosolíu á hverjum degi, hún er algjör snilld ! Ég nota hana mikið við bakstur og er eiginlega búin að skipta henni algjörlega út fyrir öðrum olíum. Hún inniheldur mettaðar fitusýrur frá náttúrunnar hendi og í kaldpressaðari jómfrúarkókosolíu eru um 50% fitusýranna lauric-sýra sem hefur bakteríu- og sveppadrepandi eiginleika.
Kókosolía hefur verið notuð í meðferð við alzheimer og hefur ótrúlega jákvæð áhrif á heilann, svo á hún á að auka brennsluna sem er aldeilis ekki slæmt.
Kaldpressuð kókosolía hefur verið notuð í meðferð gegn candida-sveppinum og hægt er að nota olíuna í margt annað en matargerð s.s. á húð, í hár og ég hef heyrt að hún virki líka sem tannkrem!
Það er hægt að nota hana í nánast hvað sem er! Afurðir kókos eru taldar mjög hollar eins og t.d. kókosvatn og ekki skemmir fyrir hvað kókos er góður fyrir.
Allt er gott í hófi er samt uppáhalds setningin mín og á hún við um alla hluti, hvort sem það tengist matarræði eða bara hverju sem er. Ef við förum og sullum í okkur þremur glösum af grænum safa og engu öðru yfir daginn þá endum við bara jafn græn í framan og djúsinn.
Njótum lífsins og gerum allt í hófi!
Róberta Michelle Hall er fædd í Reykjavík en rekur rætur sínar til Bandaríkjanna eins og nafnið ber með sér. Hún á erfitt með að sitja kyrr og líður best með mörg járn í eldinum. Helstu áhugamál Róbertu eru líkamsrækt, sálarrækt og bakstur. Hún bakar allt milli himins og jarðar hvort sem það er óhollt eða hollt og lætur stundum aðra um að klára kökuna sem hún smakkar þó sjálf því gott skal það vera!