Allir hljóta að kannast við hversu erfitt það er að drífa sig af stað í að hreyfa sig eftir langan vinnudag.
Þegar maður er nýkominn heim í hlýjuna og langar helst af öllu að fara í langt og gott froðubað og svo beint í víðu bómullarnáttbuxurnar og setjast í sófann með poppskálina í fanginu og sakamálaþátt í tækinu.
Þegar heim er komið er sérlega erfitt að ætla að fara í þröngu íþróttabuxurnar, bolinn og skokka út áleiðis á æfingu, það þekki ég allt of vel.
Það sem ég geri í þessum sporum er að ég ákveð með sjálfri mér að skipta um föt, segi við sjálfa mig að ég sé bara að fara í íþróttafötin en ekkert meira en það, engin frekari skuldbinding fólgin í því.
Málið er bara að þegar ég er komin í þróttafötin virðist það eitthvað svo kjánalegt að drífa sig ekki bara af stað.
Svo ég dríf mig af stað!
Sveindís Þórhallsdóttir útskrifaðist í vor með BS gráðu í sálfræði frá Háskóla Íslands en býr nú í fallegum bæ á Finnlandi þar sem hún leggur stund á mastersnám í íþrótta- og æfingasálfræði. Sveindís er jafnframt einkaþjálfari, heldur úti fjarþjálfun á vefsíðu sinni og hefur mikinn áhuga á hvers kyns hreyfingu og heilbrigði.
Pole fitness á hug hennar allan og fríkvöldunum er oftar en ekki varið í að teygja fyrir framan sjónvarpið. Hún á eitt stykki frábæran kærasta og dreymir um að bæta kisu á heimilið.