Ég hef verið hugsi yfir ákveðnu máli en það er æðið sem rennur á fólk í janúar þegar það hleypur upp til handa og fóta, ákveðið í að hefja nýjan og hollari lífsstíl.
Það er eins og þjóðin klofni í tvennt; annars vegar í þá sem ætla loksins að tækla lífsstílsbreytinguna og komast í almennilegt form með hjálp mataræðis og hins vegar í hinn hópinn sem gerir grín að þeim fyrrnefndu, vitandi að flestir munu að mánuði liðnum vera komnir aftur í sömu, gömlu rútínuna, rétt eins og áður.
Batnandi fólki er best að lifa. Það er, tel ég, ekkert að því að gera sitt til þess að verða „besta útgáfan af sjálfum sér“. Auðvitað erum við öll fullkomin eins og við erum en það þýðir ekki að við munum ekki vaxa og þroskast með árunum.
Ég vil ekki gera of mikið grín að fyrri hópnum því ég veit manna best að þó svo að það geti tekið lengri tíma en áætlað var þá getur árangur náðst að lokum.
Eftir margra ára tilraunir og fögur fyrirheit hef ég loksins farið úr því að vera ákaflega háð daglegri gosdrykkju í að henda þeim drykkjum alfarið út fyrir sódavatn og tedrykkju (hef aldrei drukkið kaffi, skiljú).
Svo er spurning um öfgarnar. Hugmyndin um detox poppar reglulega upp og ég verð að játa að ég hef oft verið forvitin um það. Ég hef hlustað á fólk ræða detox en það vekur gjarnan sterk viðbrögð hjá einstaklingum. Ég á til að mynda vinkonu sem heldur því fram að samkvæmt læknum sé engin ástæða til þess að detoxa þar eð að líkaminn losar sig sjálfur við eiturefni og að það sé því engin ástæða fyrir þig að svelta þig dögum saman á einhverjum djúskúr.
Önnur vinkona mín segir hins vegar að þó svo að það sé satt, að líkaminn eigi að geta losað sig við eiturefni og hafi raunar gert það áður fyrr, þá sé nú svo mikið af eiturefnum í matnum sem við borðum að líkaminn þarfnist hjálpar aukalega.
Ég var á tímabili satt að segja orðin algjörlega rugluð á þessu. Hvort er satt? Hver hefur rétt fyrir sér? Hverjum get ég trúað? Að lokum datt ég niður á lokaniðurstöðu mína: Að ég get engum treyst jafn vel og sjálfri mér. Að rétt eins og ég prófaði að drekka sítrónuvatn á morgnana – af því að það á að vera svo hollt – og uppgötvaði við það að ég varð eldhress af kvefinu sem ég vakna með, þá sé það mitt að prófa mig áfram með hvað henti mér best og komast þannig að því hvað er satt og hvað ekki.
Það er hægt að segja mér að eitthvað sé hollt, eða óþarfi, en aðeins með því að prófa þær kenningar get ég fundið svarið fyrir mig (en það er jafnframt ástæðan fyrir því að þú getur nú fundið magnesíum dunk uppi í skáp hjá mér).
Við erum öll ólík. Það sem hentar einum á ekki við annan, og öfugt. Við getum ekki látið aðra segja til um hvað er best fyrir mig og þig. Það sem við getum gert, hins vegar, er að virða það að við búum yfir ólíkum upplifunum og skoðunum og hætt að dæma fólk fyrir að vera öðruvísi en við.
Það sem gildir á endanum í þessu er ekki hvort þig langar að fara á safakúr eða ekki – bara að þú fáir að vera eins og þú ert, án þess að vera dæmd fyrir það. Reynum því vinsamlegast að bera virðingu fyrir hvort öðru, í þessu sem öllu.
Guðný Guðmunds fæddist árið 1986 og ólst upp á Vestfjörðum. Hún hefur aðallega verið búsett í Reykjavík en líka alið manninn í Barcelona, Finnlandi og Englandi. Í dag starfar hún sem texta- og hugmyndasmiður auk þess sem hún rekur Innblástur.is, upplýsingasíðu um nám, atvinnu og ferðalög fyrir ungt fólk. Guðný hefur þó mestan áhuga á andlegum málefnum og sjálfsrækt.