Í byrjun árs skoðum við oft og lögum aðeins til á ýmsum sviðum lífsins og þá kannski aðallega heilsufarið.
Mjög mikilvægt er að sjá til þess að líkaminn fái rétta fitu þá t.d. í formi lýsis og Omega 3. Einnig er gott að bæta við annarsvegar hörfræolíu og/eða hveitikímolíu. Flestir kannast við hörfræolíu sem er mjög góð en hveitikímolían er ekki síðri.
Gott er t.d. að fá sér hörfræolíu og þegar hún er búin þá að breyta yfir í hveitikímsolíu. Þær passa mjög vel með lýsi, 1-2 tsk af hvorri daglega er frábær viðbót fyrir líkamann. Það er fínt að fá sér skeið af létt AB mjólk eftir að olían hefur verið tekin því hún er svosum enginn draumur á bragðið.
LIGAN VERNDAR LÍKAMANN
Hörfræ eru sérstaklega holl. Þau innihalda lignan sem talið er að verndi líkamann gegn sumum tegunda krabbameins t.d brjósta, ristils, nýrna og húðkrabbameins. Þau innihalda einnig omega 6 og omega 9 fitusýrur, b vítamín, kalíum, lesiþín, magnesíum, prótein, sink og fullt af trefjum sem nauðsynleg eru fyrir meltinguna.
Hægt er að fá hörfræin heil, mulin eða sem olíu. Til þes að líkaminn geti tekið upp næringuna úr hörfræjum þá þurfa þau að vera mulin eða hafa verið í bleyti yfir nótt. Hörfræin eru bragðgóð og er því gott að blanda útá hafragrautinn, í sjeikinn, ab mjólkina eða í brauðgerð.
Hörfræolía er því meinholl. Rannsóknir hafa sýnt að hún hefur áhrif á taugakerfið, þunglyndi og annað sem tengist því. Inntaka hörfræolíu jafnar líka hormónakerfið og þess vegna er hún talin góð fyrir konur á breytingaskeiðinu. Hörfræolía er mjög rík af fitusýrunni omega3 en einnig eru í henni omega6 og omega9.
UNDRAFÆÐAN HVEITIKÍM
Hveitikím er undurfæða, ein næringarríkasta fæðutegund sem fyrirfinnst.
Hveitikím inniheldur 23 næringarefni og magn næringarefna í hverju grammi er meira en í nokkru öðru grænmeti eða korni. Vegna þess að hveitikím er svo ríkt af næringarefnum, vítamínum, járni og trefjum er hægt að leggja að jöfnu u.þ.b. 30 g af hveitikími og 250 g af grænmeti sem eru góðar fréttir fyrir þá sem þurfa að auka magn grænmetis í fæðunni og ekki síður fyrir þá sem þurfa að skera niður neyslu á einföldum kolvetnum. Í hverjum 100 gr. af hveitikími eru 27 gr. prótein. Þess vegna er hún góður kostur fyrir fólk sem stundar íþróttir, auðvelt er að bæta henni út í sjeikinn og þá er það rétt í lokin.
Magn næringarefna í hveitikíminu virðist endalaust; það inniheldur meira magn kalíums og járns en nokkur önnur fæðutegund ásamt því að innihalda mikilvægar Omega-3 fitusýrur, ríbóflavín, kalsíum, sink, magnesíum og A-, B1- og B3-vítamín í miklu magni. B1- og B3-vítamín eru mjög mikilvæg til að viðhalda jafnri orku og heilbrigði vöðva, innri líffæra, hárs og húðar.
KRAFTAVERK FYRIR HÚÐ OG HÁR
Hveitikímið er einstaklega ríkt af E-vítamíni. E-vítamín er eitt magnaðasta fituleysanlega andoxunarefnið í líkamanum. Það er einstaklega öflugt til varnar hættulegum sindurefnum sem jafnframt er öflug forvörn gegn krabbameini, það styrkir ónæmiskerfið og talið koma í veg fyrir hjartasjúkdóma. E-vítamínið er einstaklega styrkjandi fyrir húð og hár og talið hægja verulega á öldrun líkamanns ásamt því að styrkja lungu, blóð og hafa jákvæð áhrif á sjón og augu.
Hveitikímolían er þess vegna mjög góð fyrir okkur, full af E-vítamíni sem er besta andoxunarefnið.
Hún er góð fyrir okkur að innan sem utan, góð fyrir húðina og margir finna gríðarlega mikinn mun á einhverjum húðvandamálum, eins er hún góð gegn öldrun húðar. 2 tsk eða 1 matskeið á dag er góður dagskammtur.
Prófaðu endilega að taka hveitikím olíu í nokkrar vikur og sjáðu til hvort hún hefur ekki góð og uppbyggileg áhrif á þig.
Guðbjörg er iþróttakennari frá Íþróttakennaraskóla Íslands. Hún hefur verið í líkamsræktarbransanum frá því árið 1989. Alltaf tilbúin að taka að sér krefjandi verkefni. Haldið ýmis þjálfaranámskeið fyrir þolfimikennara og einkaþjálfara auk þess að vera stundakennari við HR íþróttafræði. Undanfarin 19 ár hefur hún starfað með Agústu Johnson en nú hefur hún stofnað sitt eigið fyrirtæki, G fit heilsurækt og elskar að taka þátt í vellíðan fólks og upplifa árangur í líkamsrækt. Guðbjörg á skilningsríkan eiginmann og þrjú yndisleg börn.