Ég var að enda við að klára það sem eftir var af jólasmákökunum, konfektinu og sænsku kókosbollunum sem ég skolaði niður með síðasta kaflanum í jólabókinni.
Er nú södd andlega og líkamlega og hugsa með tilhlökkun til heilsusamlegri lífsmáta en þann sem ég hef ástundað síðasta mánuðinn.
Viljandi hef ég gúffað svo mikið í mig yfir hátíðarnar (það verður jú að vera af nógu að taka ef ég ætla í átak) að ég er komin með ógeð.
Mér líður eins og skvapandi kaffifrómas sem ég píndi mig af einskærri kurteisi í jólaboðum hjá ömmu í denn. Ég held að ég muni aldrei aftur koma niður kókostopp, brúnaðri kartöflu eða hangikjötssneið og mér mun líða þannig alveg þangað til á morgun þegar hungrið sækir á mig aftur.
En ég hef ákveðið mig! Á morgun verður bara “kóld törkí”. Ég mun þamba detox-te, japla á ávöxtum og drekka vatn í lítravís í kraftgöngu á svellögðum gangstéttum og fara í hotjóga, því það er svo gott fyrir líkamann að fá hita inn að beini í vetrarkuldanum sem klípur í kinnar.
Þetta er ekki áramótaheit, ég hef aldrei staðið við þau, þau eru eitthvað svo endanleg og maður svo innilega mikill lúser ef maður stendur ekki við þau. Þetta er meira svona “að taka pásu” frá ólifnaði en ekki “hætta með” honum alveg endanlega.
Áramótin fá flesta til að líta yfir farinn veg og hugsa um hvert þau vilja að vegurinn leiði sig. Það er öllum afskaplega hollt að gera það, öll viljum við jú betrumbæta okkur en ég held að það sé glapræði að ætla sér um of; þú hættir ekki að nöldra, tekur til í öllum skápum, skipuleggur líf þitt, hættir að borða nammi, drekka kók og kaffi, hættir að reykja og drekka, byrjar að heimsækja mömmu oftar, stunda ræktina og lesa fimm bækur á hverju kvöldi fyrir börnin á einu augnabliki.
Það er til of mikils mælst, einblíndu á einn hlut í einu og hafðu hin í huga og á blaði til að gleyma ekki. En eins fullkomin og svo margir virðast vera þá er enginn fullkominn þegar þú kynnist þeim nánar og það er glórulaust að ætlast til þess að þú verðir það.
Ég las nýlega góða speki:
“Mun það sem ég geri núna, láta mér líða vel á eftir?”
Þessa speki er hægt að færa yfir á matarræði, drykkju, hegðun, samskipti, hreyfingu og allt, afhverju að gera nokkuð sem mun láta okkur líða illa á eftir?
Gleðilegt 2013 og gangi okkur vel með hvað sem er! 😉
Vala vinnur hjá 66 Norður, er menntaður innkaupastjóri og faglegur ráðgjafi hönnuða í öllu sem snýr að viðskiptum og markaðssetningu. Hún er krabbi, fædd árið 1979 og montin mamma tveggja stráka. Býr í 101.