Heimaleikfimi er einföld, ódýr og auðveld. Hún sparar þér líka tíma og gerir þér um leið ljóst að það er enginn sem ræður yfir líkama þínum og holdafari annar eða önnur en þú sjálf. Með því að koma því í vana að æfa heima áttu líka eftir að halda því áfram þó þú farir í frí til útlanda eða í bústað. Svo er það alls ekki eins flókið og margir halda að æfa heima.
Þú þarft t.d. bara kókbrúsa til að búa til þyngd. Getur fyllt tveggja lítra af vatni og þá ertu komin með 2. kg eða sandi og þá ertu komin með rúmlega þrjú kg. Líter af sandi samsvarar 1.5 kg. Svo má setja þessar flöskur í íþróttatösku eða bakpoka og gera hnébeygjur t.d. Maður reddar sér!
Hér eru 5 leiðir til að byrja að stunda heimaleikfimi og ná góðum árangri.
1. Búðu til pláss
Reyndu að forðast áreiti á meðan þú gerir æfingarnar þínar. Best væri að fara út í skúr, nota laust herbergi eða jafnvel bara vera utandyra á meðan þú æfir (fullkomið á pallinum á sumrin). Aðal málið er að forðast truflun. Þú vilt helst vera þar sem krakkarnir láta þig í friði, síminn hringir ekki og þú hleypur ekki af stað til að senda tölvupóst sem þú mundir allt í einu eftir. Ef þú nærð að afmarka stundina og skapa þér rými fyrir sjálfa þig og þessar æfingar er líklegra að þú náir góðum árangri.
2. Gerðu réttu æfingarnar
Til þess að fá kúlurass og magavöðva þarftu að gera réttu æfingarnar. Internetið er alveg stút fullt af allskonar æfingum sem þú getur gert en vefurinn Fitnessblender býður upp á fjölbreyttar, faglegar og góðar æfingar sem þú getur gert með þjálfaranum á skjánum.
Til að byrja með er til dæmis hægt að setja sér markmið um þrískiptar æfingar; Kviðæfingar, hnébeygjur og armbeygjur x15 skipti af hverri æfingu, í þrígang. Gerðu þetta þrisvar til fjórum sinnum í viku í eina viku og prófaðu svo að setja saman aðrar þrjár æfingar í vikunni þar á eftir eða notaðu hálftíma eða klukkutíma æfingar af Fitnessblender.
Eftir því sem á líður skaltu gera æfingarnar aðeins erfiðari og mundu að mataræðið skiptir öllu ef þú vilt grennast. Það er hinsvegar heimaleikfimin sem “hressir mann upp og gerir mann stífan” eins og karlarnir sungu hér um árið.
3. Föst stundaskrá
Það mun virkilega hjálpa þér að festa æfingarnar í vikuplanið hjá þér og láta alla fjölskyldumeðlimi vita að þú ætlar að nota þennan x tíma til að æfa þig. Með öðrum orðum, þú haggar ekki æfingatímanum nema í neyðartilfellum. Það getur stundum verið erfitt að bera virðingu fyrir eigin tíma og markmiðum en um leið og þú gerir öðrum ljóst að þú ætlir þér að standa við þetta, og heldur þig við planið, þá uppskerð þú bæði þeirra virðingu og þína eigin.
4. Líttu á þetta sem andlega útrás
Eitt af því besta við æfingar og hreyfingu eru þau jákvæðu áhrif sem hreyfingin hefur á streitu og neikvæðar hugsanir. Með því að hreyfa sig reglulega ýtir maður undir framleiðslu gleðiboðefna í heilanum og þetta hefur aftur jákvæð áhrif á hugsun og hegðun. Í stað þess að líta á hreyfinguna sem eitthvað sem “þú verður að gera” skaltu líta á hana sem leið til að losna við frústrasjón, pirring, stress og leiða. Líttu á þetta sem aðferð til að hreinsa hugann og fá skýrari hugmyndir um hvað er að gerast í lífi þínu og hvert þú ert að stefna.
5. Ekki gleyma að nærast
Mundu að hugsa vel um mataræðið og næringuna. Sjáðu til þess að þú fáir nóg af góðu grænmeti og ávöxtum, mjög gróft kornmeti og fitulítið kjöt en gjarna feitan fisk. Reyndu að kaupa lífrænt ef þú getur og vertu forvitin um hollan mat án þess að gera þetta of flókið. Svo er gott að stilla brauðmeti og sætindum í mikið hóf en það eru víst engar fréttir 😉
Passaðu að borða í síðasta lagi 45 mínútum fyrir hverja æfingu og vertu skipulögð í mataræðinu. Farðu snemma að sofa, æfðu samviskusamlega og þá munu góðir hlutir byrja að gerast fyrir þig eftir mjög stuttan tíma.
Gangi þér vel!
Ég er af X-kynslóð, elska 70’s tónlist, finnst gott að fara í sund á kvöldin og á erfitt með arfa i görðum. Kýs fjölbreyti í lífið. Kann eina Eminem plötu utanað. Hef thing fyrir Marilyn Monroe, áhuga á feminisma og svona sitthvað fleira.