Við eigum alltaf tíma til þess að hreyfa okkur 10 mínútur í senn. Þetta er ekki alltaf spurning um 60 mín æfingu.
Sýnt hefur verið fram á að stuttar æfingalotur gefa svipaðan árangur eins og klst í einu. Það að vera á hreyfingu og vera aktíf heldur líkamanum óendanlega vel við.
Ef þú gefur þér 10 mínútur á dag þá er gott að hugsa sem þetta sé þín æfing og þú byrjar á fyrstu tveim mínutum rólega og fylgir svo eftir með æfingum á góðri ákefð eins og þú getur og endar svo síðustu mínúturnar rólega.
Til að ná sem mest út úr æfingunni þá er best að ákefðin sé eins mikil og þú ræður við og náir að hækka púlsinn þinn vel. Þol, styrkur og liðleiki eru þeir þjálfunarþættir sem við eigum að hafa í réttu hlutfalli.
Það er hægt að skipuleggja þessar 10 mínútur með alla þessa þætti inni. Þú nærð hinsvegar betri árangri með því að skiptast á að gera þol- og styrktaræfingu.
Sem dæmi: Hlaup í 10 mín eða snarpar þolæfingar. Armbeygjur og aðrar styrktaræfingar í 10 mín. Teygjurnar er best að gera daglega og muna eftir þeim!
Eftir þessar 10 mín líður þér miklu betur og þú finnur hvað þú ert að innleiða hjá þér heilsusamlegar venjur og þær sem segjast ekki enn hafa tíma þá leiðbeini ég þeim yfir daginn – svona:
10 mínútna æfing strax þegar þú vaknar og þú finnur hvað blóðflæðið fer í gang, 10 mínútur í hádeginu og þú endurnýjar orkuna og svo 10 mín á kvöldin.
Til dæmis hressandi ganga eftir kvöldmat eða jafnvel fyrir framan sjónvarpið og fá fjölskylduna með í leiðinni! Þetta er allt spurning um vilja og aga. Við viljum öll hafa hreyfingu inní okkar daglegu rútínu.
Við finnum það hvað það er gott að mæta á morgnana, hreyfa líkamann og vera hress allan daginn og/eða eftir langan vinnudag að ná að hreinsa og endurnýja sig með góðri æfingu.
Hreyfing skiptir nútímafólk miklu máli ef það vill viðhalda góðri heilsu fram eftir aldri. Byrjaðu strax í dag að hreyfa þig, þó ekki sé nema í 10 mínútur í senn.
Guðbjörg er iþróttakennari frá Íþróttakennaraskóla Íslands. Hún hefur verið í líkamsræktarbransanum frá því árið 1989. Alltaf tilbúin að taka að sér krefjandi verkefni. Haldið ýmis þjálfaranámskeið fyrir þolfimikennara og einkaþjálfara auk þess að vera stundakennari við HR íþróttafræði. Undanfarin 19 ár hefur hún starfað með Agústu Johnson en nú hefur hún stofnað sitt eigið fyrirtæki, G fit heilsurækt og elskar að taka þátt í vellíðan fólks og upplifa árangur í líkamsrækt. Guðbjörg á skilningsríkan eiginmann og þrjú yndisleg börn.