Að velja sér líkamsræktarstöð er að nokkru leiti svipað og að velja sér veitingarstað. Nema kannski að þegar maður velur sér líkamsræktarstöð þá er tilgangurinn að fara aftur og aftur og aftur, þannig að rétt val fyrir þig skiptir frekar miklu máli.
Gott er að hafa þessi atriði hér að neðan í huga þegar þú velur þér stöð svo þér líði vel í ræktinni og stundir hana að miklu þrótti.
STAÐSETNING, STAÐSETNING, STAÐSETNING
Ekki velja þér líkamsræktarstöð sem er langt í burtu frá heimilinu þínu. Best er að finna sér stöð sem er á milli vinnunnar þinnar og heimilis eða skóla. Það er nefnilega svo oft þannig að við erum tímabundin og þá er ekki sniðugt að þurfa að eyða miklum tíma í umferðinni til að komast í ræktina og í kjölfarið stressast upp og koma útúr tauguð í ræktina.
OPNUNARTÍMAR
Veldu þér stöð sem hentar þínum æfingartíma. Ekki gera þér vonir um að þú munir breyta lífsmynstrinu þínu fyrir opnunartímann í ræktinni. Veldu þér stöð sem er með opið þegar þú kemst og að opnunartíminn passi við fjölskyldulífið þitt, vinnuna eða skólann.
MEÐLIMIR
Umhverfið skiptir gífurlega miklu máli í ræktinni en fólkið gerir það líka. Það getur hentað sumum að vera á stað þar sem eru bara konur eða karlar á meðan aðrir vilja vera í blönduðum hópum og er þetta atriði sem vert er að huga að. Einnig getur hentað sumum að vera með ákveðnum aldurshóp meðan öðrum er alveg sama þannig að þú þarft að huga að þessum málum áður en þú velur þér stöð.
STARFSFÓLK
Starfsfólkið í ræktinni þarf að sýna þér stuðning og kurteisi, það þarf að vera tilbúið til að hjálpa þér og svara spurningum. Einnig er mikilvægt að það kunni á tækin í tækjasalnum og þekki stundarskránna vel. Áður en þú velur þér stöð til að æfa á spurðu um hæfni starfsfólksins og menntun svo þú getir metið hvort það sé hæft til að leiðbeina þér og gefa þér ráðleggingar hvað varðar heilsuna þína.
ÞRIFNAÐUR
Skítastuðullinn okkar eru mismunandi. Sumir taka eftir þrifnaði um leið og þeir koma á nýja staði meðan öðrum er alveg sama. Væntanlega erum við sammála um að þrifnaður skiptir máli á líkamsræktarstöðum þannig að hafðu augun opin, kíktu inn á klósettið, inn í sturturnar og á tækin þegar þú heimsækir stöðina í fyrsta sinn. Spurðu hvort það séu ókeypis handklæði til að nota á tækjunum fyrir meðlimi.
TÆKIN
Þegar þú ferð inn í tækjasalinn þarftu að vera viss um að það séu mörg „vinsæl“ tæki. Einnig þarftu að huga að því að tækin sem þér þykir skemmtilegast að fara í eru til staðar. Taktu eftir því hvort það séu leiðbeiningar við hvert og eitt tæki, hvort mörg séu merkt biluð og hvort það séu einhverjar tímatakmarkanir í tækjasalnum.
TÍMAR
Margar stöðvar bjóða upp á leikfimistíma, hot yoga, zumba, body blance og fleira og fleira. Spurðu að því hvort þeir tímar sem boðið er upp á eru innifaldir í verðinu, eða hvort þú þurfir að greiða sérstaklega fyrir þá. Vertu líka viss um að ef þú ætlar þér að fara í tíma að þeir séu á þeim tíma sólarhringsins sem hentar þér að fara.
KOSTNAÐUR
Hvað það kostar að fara í ræktina er sennilega það sem skiptir einna mestu máli. Margar stöðvar eru með skráningargjald meðan aðrar eru það ekki. Spurðu að þessu! Einnig hvort þú getir borgað einn mánuð í einu, þarftu að skuldbinda þig, getur þú sagt upp áskriftinni hvenær sem er, hvað gerist ef þú veikist og kemst ekki í ræktina í einhvern tíma og fleira.
Það skiptir máli hvaða stað þú velur þér. Kannski ertu að fara eyða 3 – 5 klt. á viku í ræktinni næstu mánuðina og þér verður að líða vel. Taktu þér tíma, vandaðu valið og veldu rétt.
(ps.ég hafði til hliðsjónar þessa grein þegar ég skrifaði textann.)
Sigrún Þöll Þorsteinsdóttir (f.15 feb 1975 – d. 8 apríl 2014) bloggaði á Pjatt.is í rúmlega tvö ár.
Sigrún Þöll starfaði sem tölvunarfræðingur, var dellukona, tækjasjúk og fagurkeri af lífi og sál. Að eigin sögn fannst Sigrúnu gaman að hlaupa, hjóla, drekka kaffi, huga að heilsunni, prjóna, lesa, taka ljósmyndir, rækta garðinn sinn og fleira og fleira. Blessuð sé hennar minning. Sigrún verður ógleymanleg þeim sem kynntust þessari dásamlegu konu.