Flestum finnst okkur hundleiðinlegt að þrífa og taka til.
Við pjattrófur höfum einmitt fjallað um ójafna verkaskiptingu á heimilinu og látum okkur flestar dreyma um að fá fagmann í þrifin en eins og staðan er hafa fáir efni á þeim lúxus og maður hreinlega neyðist til að gera þetta sjálfur.
Ég reyni að gera þessi skylduverk eins skemmtileg og ég get, ásamt því að fá góða hreyfingu í leiðinni.
Ég hef þann vana á að taka allt heimilið í gegn í einum rykk og púla svo að það lekur af mér svitinn og ég þarf ekki að fara í ræktina þann daginn (eða þann næsta).
Helst vil ég þrífa þegar ég er ein heima, ég vil ekki hafa fjölskyldumeðlimi fyrir mér eða að trufla mig, samvinna í þessum málum á ekki við mig. Oftast tek ég rykkinn um helgar og eftir að börnin eru búin að taka til hjá sér fer maðurinn minn með þau í bíó, húsdýragarðinn eða sund svo ég fái frið.
Undirbúningsvinnan:
- Ég skelli mér í þægileg “þrifnaðarföt” (gamlar íþróttabuxur, hlýrabolur og inniskór).
- Set skemmtilega og hressandi tónlist eða útvarpsþátt á, frekar hátt. (gerir þrifin bæði skemmtilegri og eru fljótari að líða)
Svo byrja ég vinnuna, tek þrifin í lotum:
- Tek til og þurrka af 20-30 mín og svo pása 5 mín. (Facebook og kaffibolli er algengt í pásu hjá mér).
- Uppvask og eldhús 30 mín og svo pása 10 mín. (Hér er ég vel hituð upp og sveitt).
- Baðherbergisþrif og ganga frá þvotti 30 mín, pása 10 mín. (Muna að drekka vatn og fá sér smá orkugjafa).
- Að lokum skúra ég og ryksuga mottur 30-40 mín.
Tek það fram að ég geng mjög rösklega til verka, lærði að gera hlutina hratt en vel þegar ég vann við að þrífa félagsmiðstöð á menntaskólaárunum, ég nenni ekki að eyða meiri tíma í þetta en þarf. Þegar ég loks er búin eftir 2-3 tíma púl er fátt betra en að skella sér í sturtu og heitan pott og leyfa þreytunni að líða úr sér.
Maðurinn minn sér oftast um að elda og eftir sundferðina er fátt dásamlegra en að koma heim í mat á hreina og fína heimilinu!
Vala vinnur hjá 66 Norður, er menntaður innkaupastjóri og faglegur ráðgjafi hönnuða í öllu sem snýr að viðskiptum og markaðssetningu. Hún er krabbi, fædd árið 1979 og montin mamma tveggja stráka. Býr í 101.